Andvari - 01.01.1995, Page 136
134
ÁRMANN JAKOBSSON
ANDVARI
náungakærleik. Maðurinn átti að þroskast í átt að ást að Guði með ást á
náunganum.49 Fordæmið er frá Kristi. Annað meginboðorðið sem hann
taldi lögmálið byggt á var: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.50
Páll er einnig gæddur hinum fjórum mannlegu höfuðdyggðum sem Al-
cuin fjallar um í riti sínu.51 Réttlæti (iustitia) Páls birtist í því að hann er
„raungóður og fályndur og þýður við alla vini sína og góða menn en hann
var stirðlyndur við vonda menn, þjófa og illmenni.“ (410) Hinn réttláti
kirkjuhöfðingi greinir milli góðra og illra, umbunar þeim góðu en refsar
hinum. Vitra (sapientia) er undirstöðudyggð samkvæmt riti Alcuins: „Allra
hluta fyrst er manni leitanda hver sé sönn hyggjandi eða sönn speki“.52 Páll
aflar sér hennar á unga aldri með miklum lærdómi svo að hann er „næmur
og vel lærður þegar á unga aldri“ og síðar „skörungur . . . bæði að lærdómi
og viturleik og atgjörvi.“ (409, 413) Á 12. öld fer mikilvægi lærdóms vax-
andi í Evrópu og var litið á hann sem mikilvæga leið að Guði.53 Þriðja
mannlega höfuðdyggðin var styrkt (fortitudo) sem Páll hefur í ríkum mæli.
Honum er lýst sem „stjórnarmanni“ sem er staðfastur í sinni ætlan. Er
hann fellst á að taka við byskupstign gerir hann það „rösklega“ og tekur
þegar við fjárreiðum staðarins (410-1). Hann ráðfærir sig aftur á móti við
vini og vandamenn þegar mikið liggur við enda hluti af hóp. Það sést í frá-
sögnum af beinaupptöku Þorláks og löggildingu nýs máls (417-8). En ef um
er að ræða embættisskyldur er hann einfær um að standa í stórræðum, eins
og sést á kirknatali hans (421).
Af fjórum mannlegum höfuðdyggðum er það þó stillingin eða hófsemin
(temperentia) sem einkennir Pál. Sá höfuðkraftur hefur mest vægi í riti
Alcuins og er mjög haldið fram í bréfi Páls postula til Títusar.54 Stilling Páls
kemur fram í varkárni við að lýsa frænda sinn dýrling (417). Mest áberandi
er hún þó ef Páll er borinn saman við starfsbróður sinn, Guðmund Arason.
Guðmundur er „stirður og stríður“ í boðorðum, „forboðar og bannsetur“
menn, virðir „hvorki mennina né landslögin“ og krefst þess að Páll styðji
hann í þessu. Páll hefur annan hátt á: „Gjörði hann sér og guði þann veg
marga að ávexti að hann hirti aðra hóglega en þá nenntu ei aðrir ávallt illa
að hafa.“ Hann leggur „nokkra litla skrift“ á þá sem Guðmundur hefur for-
boðað og neitar að styðja hann í rangindum. Þegar höfðingjar vilja ráðast
að Guðmundi letur Páll þá „og ætlaði með meiri stillingu og ráði farið ef
lengri væri bið að“. Eigi að síður fer illa og kennir sagan þvermóðsku Guð-
mundar um og segir mæðulega að þá sýndist „brátt með hverri visku var
hvors þeirra forsjá.“ Vanstilling Guðmundar speglar stillingu Páls (421, 427-
30) sem er hans höfuðdyggð eins og sést í eftirmælum hans: „Hann stýrði
Guðs kristni með mikillri stillingu 16 vetur“ (433).
Eitt birtingarform stillingarinnar er þolinmæðin sem Alcuin telur lykil að
eilífri dýrð annars heims.55 Páll er gæddur henni frá upphafi, ber stærstu