Andvari - 01.01.2004, Page 66
64
BJÖRG EINARSDÓTTIR
ANDVARI
varp til laga um réttindi og skyldur hjóna. Auður var einn þriggja flutn-
ingsmanna og var það tekið fyrir vegna áskorana frá kvennasamtökum.
Staða mála var sú að tvenn lög voru í gildi um lögfylgjur hjúskapar:
lög um fjármál hjóna nr. 3, 1900 og lög um réttindi og skyldur hjóna
nr. 20, 1923. Um 1960 var unnið að endurskoðun og frekari samræm-
ingu hjúskaparlaga á Norðurlöndum og var ísland aðili að því starfi.
Athyglin beindist að mismunun í íslenskum lögum eftir því hvenær til
hjúskapar var stofnað. Samkvæmt eldri lögunum (1900) er bú hjóna
félagsbú sem bóndinn hefur forræði yfir. Fjármálaskipulag eldri
laganna samrýmdist ekki réttarvitund síðari tíma fólks um jafnræði
kynjanna og um jafnræði í hjúskap; lögin frá árinu 1900 fela í sér rang-
læti gagnvart konum sem þar eiga hlut að máli. Lögin frá 1923 byggj-
ast á jafnræði og þeirri meginreglu að eignir hjóna séu sameign þeirra
eða hjúskapareign. Iðulega hefur komið í ljós hve eldri lögin voru
ranglát og birtist það í því að réttur konunnar var fyrir borð borinn til
ráðstöfunar á félagsbúi þótt hvortveggja lögin (1900/1923) byggist á
sameign hjóna. Lagfæring á misréttinu var breyting á lögum nr. 20,
1923, 2. málslið 90. greinar laganna er orðist svo: Frá 1. september
1961 gilda þau einnig um hjón, sem gengið hafa að eigast fyrir 1.
janúar 1924. Síðari dagsetningin á við þann dag er lögin frá 1923 tóku
gildi. Afnám laganna frá 1900 hafði lengi verið á stefnuskrá KRFÍ og
félagið sent fjölda ályktana þar að lútandi enda hjúskaparlaganefnd
jafnan starfandi innan félagsins. Nú var þetta réttlætismál í höfn með
þessum örstutta lagatexta er varð að lögum frá Alþingi 10. mars 1961.
Samþingsmaður Auðar Auðuns hafði orð á því við hana, meðan þetta
mál var í vinnslu, að það tæki varla að fást við þetta því hjónum sem
hefðu gengið í hjúskap eftir lögunum frá 1900 færi fækkandi. Auður
svaraði þessari athugasemd á eftirfarandi hátt: „Alltaf tímabært að
leiðrétta misrétti.“
✓
A ráðherrastóli
Enda þótt Auður Auðuns sæti óslitið fimmtán ár á Alþingi má með
réttu skipta þingtíma hennar í þrjú tímabil, frá hausti 1959 þegar hún
tekur sæti á þingi til jafnlengdar 1970 þegar hún verður ráðherra og frá
sumri 1971 er hún lætur af starfi ráðherra og til vorsins 1974 að hún
hættir á þingi.