Búnaðarrit - 01.01.1992, Blaðsíða 211
Mál nr. 36
Erindi Einars Þorsteinssonar um varnir gegn kartöflumyglu.
Málið afgreitt með eftirfarandi ályktun, sem samþykkt var með 19 sam-
hljóða atkvæðum:
Búnaðarþing beinir því til stjórnar Búnaðarfélags íslands að sjá til þess,
að af hálfu Búnaðarfélags íslands verði fylgzt náið með veðurskilyrðum á
vaxtartíma kartaflna á komandi árum með tilliti til varna gegn kart-
öflumyglu.
Þingið leggur áherzlu á, að bændum verði rækilega kynntar leiðbeiningar
um varnir gegn kartöflumyglu, og við hvaða skilyrði hún nær sér á strik. Þeir
verði áminntir og varaðir við, t.d. með skjáauglýsingum í sjónvarpi, þegar
aðgerða er þörf, og hætta er í nánd.
Þingið beinir því til stjórnar Búnaðarfélags íslands að fylgjast með því, að
varnarlyf séu fyrir hendi í tæka tíð.
Bent er á greinar um þetta efni í Frey og Handbók bœnda, Fréttabréfi
Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, erindi Sigurgeirs Ólafssonar á Ráðu-
nautafundi 1991 o.fl. sem haldgóðar leiðbeiningar um þennan skaðvald
kartöfluræktarinnar, sem virðist eflast, ef árferði er hlýtt og rakt, en getur
legið niðri um árabil hér á landi.
Mál nr. 37
Erindi Egils Bjarnasonar, Gunnars Sœmundssonar, Jóns Guðmundssonar
og Jóns Gíslasonar um bankamál.
Málið afgreitt með eftirfarandi ályktun, sem borin var upp í tvennu lagi.
Fyrsta setning ályktunarinnar var borin upp sér og samþykkt með 18
samhljóða atkvæðum. Framhald ályktunarinnar var síðan borið upp í einu
lagi og samþykkt einnig með 18 samhljóða atkvæðum:
Búnaðarþing telur ekki tímabært að breyta ríkisbönkunum í hlutafélög í
þeim tilgangi að einkavæða þá.
í því sambandi bendir þingið á eftirfarandi:
1. Það eitt að setja nú löggjöf um það að breyta ríkisviðskiptabönkum í
hlutafélög, alfarið í eigu ríkisins fyrst í stað, getur ekki talizt raunhæf
aðgerð, á meðan ekkert liggur fyrir um, eftir hvaða reglum skuli unnið
við sölu á bönkunum.
Setning slíkrar löggjafar myndi leiða til þess, að Alþingi kysi ekki
lengur bankaráð hlutbundinni kosningu.
I stað þess myndi viðskiptaráðherra skipa í stjórn fyrir bankana á
meðan hlutafélögin eru í eign ríkisins.
Færð eru fram rök fyrir einkavæðingu bankanna, að það þurfi að losa
þá undan pólitíkst kjörnum stjórnum. í því sambandi skal bent á, að
14
209