Morgunn - 01.12.1926, Blaðsíða 76
186
MORGUNN
hlutum. Trúin á þessar lækningar er orðin svo algeng
staðreynd með þjóðinni, að full ástæða er til þess að gefa
henni gætur, og helzt reyna að komast fyrir, á hverju hún
er reist, ef þess er kostur.
Ég spurði hana, hvort hún gæti skýrt mér nokkuð frá
árangrinum af þessum miklu málaleitunum. Hún lét lítið af
því, að hún gæti það, enda mun ekki annað fjær upplagi
hennar en yfirlætið. Langfæstir láta hana nokkuð vita um
árangurinn, en menn eru alt af að skrifa henni, að þeim
sé kunnugt um, að fólk, sem þeir þekki, hafi fengið svo
góða heilsubót fyrir hennar milligöngu, og þess vegna snúi
þeir sér til hennar með sín mein.
»Af þessu ræð ég« sagði stúlkan, »að árangurinn sé
einhver. En ég er ekkert að fullyrða um það, og læt hvern
hafa sína skoðun um það óáreittan«.
Ég veitti því eftirtekt fyrir norðan, að jafnvel þeim
mönnum, sem hafa mest á móti þessum lækningum, sem
talið er að gerist fyrir milligöngu Margrétar, virðist ekki
koma til hugar, að hún segi víss vitandi nokkurt orð ósatt
um það, er henni finst fyrir sig bera. Þeir halda, að hún
viti ekki annað, en að alt þetta sjái hún, en að alt sé það
ímyndun, sem sé sprottin af einhverri veiklun. Hverjar
hugmyndir sem annars kann að vera skynsamlegt að gera
sér um þetta mál, virðist mér þessi veiklunar-tilgáta með
öllu óaðgengileg. Margrét hefir langmestan hluta æfinnar
verið ágætlega hraust. Og að hinu leytinu er kunnugt um
dulskygna menn bæði hér á Iandi og úti um allan heim,
sem engrar veiklunar kennir hjá.
Ég átti nokkurt tal við M. Th. í þessari ferð minni um
sýnir hennar, en konan mín þó miklu meira, því að hún
dvaldist IV2 viku í Öxnafelli. Mest af því, sem hér fer á
eftir, ritaði hún hjá sér, jafnóðum og Margrét eða móðir
hennar sögðu henni það. Fáein atriði skrifaði ég sjálfur
samstundis og ég heyrði þau. Þetta fyllir að nokkuru upp
það, sem sagt var frá henni í Morgni fyrir tveimur árum.