Andvari - 01.01.2009, Page 7
Frá ritstjóra
Eftir hrunið
Síðasta ár, frá hausti 2008 til jafnlengdar 2009, þegar þessi pistill er saminn,
hefur verið undarlegur tími með íslendingum. Bankar landsmanna hrundu
á örfáum haustdögum. Orðspor þjóðarinnar erlendis beið mikinn hnekki,
atvinnnulífið var lostið þungu höggi og fjöldi manna missti vinnuna; heimilin
ramba mörg á barmi gjaldþrots og á þjóðarbúið lögðust byrðar sem núlifandi
og komandi kynslóðir munu þurfa að bera fram eftir öldinni. Þegar slík helj-
arhögg ríða yfir hljótum við að spyrja: Hvernig mátti þetta gerast? Var þarna
einkum um að ræða brotsjói hins alþjóðlega peningakerfis sem við vorum
svo ólánsöm að lentu á okkur með meiri þunga en öðrum, eða komu þarna
til alvarlegar veilur í okkar eigin ranni? Hvernig staðið var að rekstri bank-
anna, sem voru látnir vaxa þjóðfélaginu gersamlega yfir höfuð án nokkurs
eftirlits, er harla torvelt að skilja röklegum skilningi. Þar var græðgin einráð
en allri aðgát og varúð vísað á bug. Verður kannski að leita til sálfræðinnar?
Birtust þarna einhverjar djúpstæðar meinsemdir í hugsunarhætti og siðferði
þjóðarinnar sem opnuðust vegna ytri áfalla svo við féllum flöt til jarðar í
svip? Auðvitað hljótum við að rísa á fætur aftur, ringluð og ráðvillt að vísu
en innviðir samfélagsins eiga að hafa burði til að standast þetta áfall. í kjölfar
hrunsins komumst við þó ekki hjá því að spyrja alvarlegra spurninga um
okkur sjálf, horfast í augu við að sannarlega var ekki allt með felldu í því
prjálmikla auðhyggjusamfélagi græðgi og stjórnleysis sem virtist standa með
svo miklum blóma á Islandi.
Oft hefur verið um það rætt að umskiptin í íslensku þjóðfélagi fyrir miðja
síðustu öld, frá fátækt til ríkidæmis á almennan mælikvarða, hafi verið svo
snögg að þau hlytu að reyna mjög á hin andlegu þolrif þjóðarinnar. Og margir
eru þeir sem hafa látið í ljós að þau þolrif væru engan veginn traust. Fyrir
réttri hálfri öld, árið 1959, gaf eitt helsta ljóðskáld þeirrar kynslóðar sem þá
var ung, Sigfús Daðason, út sína sterkustu bók, Hendur og orð. í henni er
bálkurinn Borgir og strendur og standa þar þessar línur:
Þjóð yðar er spillt
þjóð yðar er spillt í dýpsta eðli sínu.