Andvari - 01.01.2009, Page 8
6
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
En vér höfum einstakt lag og sjaldgæfa þolinmæði
til að leika við spillingu þjóðar yðar.
Sá leikur er oss auðveldur
og raunar ekki mörgum öðrum hentur.
í trúnaði sagt: væri þjóð yðar ekki fullspillt
gætum við látið henni í té
ögn af spillingu
því vér trúum á spillingu
nærum og nærumst á spillingu.
(Sigfús Daðason: Ljóð, 75)
*
Á síðustu árum var stýrt eftir stjörnumerkjum sem kennd hafa verið við frjáls-
hyggju-kapítalisma. Hann fólst í því að gefa „framtaki einstaklingsins“ sem
mest svigrúm, draga úr afskiptum hins opinbera af atvinnulífinu, losa um
hömlur og virkja kraft og frumkvæði dugmikilla einstaklinga. Frjálst flæði
fjármagns milli landa var innleitt. Bankarnir opnuðu fyrir takmarkalausan
aðgang að lánsfé. Ef fjármálajöfrum var leyft að græða ótæpilega myndi allt
samfélagið njóta þess. Þessu má lýsa annað tveggja með þeirri líkingu að
lífsblóði sé dælt um æðar samfélagsins frá aflstöð einstaklingsframtaksins,
- eða með því biblíulega orðfæri að hinir fátæku njóti góðs af molum sem
hrjóta af borðum þeirra ríku. Margir telja að einmitt þessi þjóðfélagsskipun
hafi beðið skipbrot í hruninu. Það birtist í því að þegar illa fór lenti skellurinn
með fullum þunga á ríkinu, nánar tiltekið almenningi í landinu. Mestöll orka
stjórnmálamanna vorra á liðnu sumri fór í að glíma við afleiðingar af stofnun
hinna svonefndu Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi og er ekki séð
fyrir endann á því þegar þetta er ritað. Þar spilaði Landsbankinn hátt með fé
sem sparifjáreigendur í þessum löndum lögðu honum til. Það notuðu útrás-
arvíkingarnir sér, enda áttu þeir bankana. Þegar féð tapaðist kröfðu Bretar og
Hollendingar íslenska ríkið, skattgreiðendur, um greiðslu og til þess þarf að
leggja ofurþungar byrðar á komandi kynslóðir. Að annað eins og þetta skuli
hafa gerst án þess að stjórnvöld eða þeir aðilar sem fyrir okkar hönd eiga að
hafa eftirlit með bönkunum hafi hreyft hönd eða fót, er nokkuð sem engin leið
er að sætta sig við. Þeir sem áttu að vaka yfir okkur sváfu á verðinum.
Allt hefur þetta grafið svo undan trausti á stjórnmálamönnum og stjórn-
völdum, að mjög örðugt verður að endurvekja það. Og það er víst að slíkt
traust mun ekki verða til á ný án þess að sársaukafullt uppgjör fari fram. Því
miður er ástæða til að efast um að það muni gerast. Þegar þetta er ritað er enn
ekki búið að skila skýrslu þeirrar nefndar sem sett var til að rannsaka aðdrag-
anda bankahrunsins og sérstaklega það hverjir kunna að hafa gert sig seka
um ólöglegt athæfi. Það eitt er vitað að hún verður svört. Vel má vera að unnt