Andvari - 01.01.2009, Side 41
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
39
anleg stjórnarmyndun hafi verið í nokkurri óvissu um sinn og ýmsar
hugmyndir uppi.
Er Hermann Jónasson hafði beðizt lausnar fékk Olafur Thors
umboð forseta til stjórnarmyndunar. Kom því málið til umræðu í þing-
flokki Sjálfstæðisflokksins, sem Bjarni Benediktsson var formaður
fyrir.37 Þar kom fram sú hugmynd, að teknar yrðu upp viðræður við
Alþýðubandalagið um samstjórn þessara flokka. í því samhengi lýsti
Bjarni þeirri skoðun sinni, að samskipti þeirra og öndverð sjónarmið
alla tíð gerðu slíka ákvörðun svo viðurhlutamikla, að þingflokkurinn
yrði að standa heill og óskiptur að henni, ef til þessa ætti að koma.
Spurði hann síðan hvort nokkur þingmannanna væri andvígur viðræð-
um við flokkinn og rétti þá Ragnhildur Helgadóttir upp höndina og
sagðist vera mótfallin stjórnarmyndunarviðræðum við Alþýðubanda-
lagið. Lýsti þá Bjarni Benediktsson yfir því, að þar með væri sú hug-
mynd úr sögunni.38 Þagnarheit mun hafa gilt um þennan atburð og því
hefur Gylfa ekki verið kunnugt um hann, er hann, sömu dagana, velti
vöngum yfir möguleikum á myndun „viðreisnarstjórnar“ Alþýðuflokks
og Framsóknarflokks, svo lík sem grundvallarsjónarmið þeirra væru í
efnahagsmálum, þótt ekki hefði hún þingmeirihluta.39 Á það reyndi þó
eigi því að rás viðburða fór á annan veg.
Stórfelld tímamót í efnahagsmálum og stjórnmálum
Ríkisstjórn Emils Jónssonar tók við völdum 23. desember 1958. Fyrsta
verk hennar var að leita leiða til þess að leysa þann efnahagsvanda, sem
við var að etja. Almenningi var brugðið vegna þess hvernig komið var
og menn voru tilbúnir til þess að sætta sig við niðurskurð og fórnir, sem
minnihlutastjórnin beitti sér fyrir. En ekki voru allir bjartsýnir á gengi
hennar. Á fyrstu dögum hennar hittust þeir Gylfi og Lúðvík Jósepsson
af tilviljun í anddyri Alþingishússins. „Þetta fer nú endanlega með
flokkinn ykkar, Gylfi!“, varð Lúðvík þá að orði.40 En hann reyndist
ekki sannspár í því efni.
Þótt landsmenn væru felmtri slegnir var hættan, sem þjóðin stóð
frammi fyrir í desember 1958, ekki aðeins fólgin í „venjulegum“ efna-
hagsvanda, heldur var hún miklu meiri. Þegar frá eru taldir ráðherrar,
gjöggskyggnir alþingismenn og helstu sérfræðingar ríkisstjórnarinnar
virðast þeir ekki hafa verið margir, sem gerðu sér ljósa grein fyrir því