Andvari - 01.01.2009, Page 59
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
57
lengur en nokkur annar eða í fimmtán ár samfleytt. Hann hefur eflaust
sett markið hátt í mennta- og menningarmálum þegar í upphafi, kunni
vel að beita orku sinni og kappi og notaði ráðherraárin vel. í mennta-
málunum skilaði hann ekki aðeins meðalgóðu verki, heldur rak hvert
stórvirkið annað. Efnahagslegar aðstæður í þjóðfélaginu voru sum árin
góðar og hagstæðar, en önnur ár slæmar og jafnvel afleitar. Maður,
jafn þaulkunnugur efnahagsmálunum og hann var, hefur eflaust reynt
að sæta lagi og koma fram með stærstu og dýrustu málin þegar bezt
áraði. Hann naut að sjálfsögðu órofa stuðnings síns eigin þingflokks og
ómetanlegt var fyrir hann, eins og stjórnarsamstarfið í heild, að Sjálf-
stæðisflokkurinn naut forystu frjálslyndra og gáfaðra manna.65 í því
samhengi fer hann viðurkenningarorðum um fjármálaráðherra úr tveim
flokkum, sem hann starfaði með í ríkisstjórn og tóku jafnan málaleit-
unum hans vel. Voru það þeir Eysteinn Jónsson, Gunnar Thoroddsen og
Magnús Jónsson, en hann nefnir líka Ólaf Thors, forsætisráðherra, og
Bjarna Benediktsson, dómsmálaráðherra, forsætisráðherra 1963-1970,
er Gylfi segir að hafi reynzt sér einkar vel. Segi honum svo hugur, að
þeir Bjarni og Ólafur hafi dugað sér hálfu betur en ella vegna þess hve
litlar undirtektir hann fékk í Sjálfstæðisflokknum við gagnrýni sinni í
landbúnaðarmálunum!
Róttœkar breytingar á fyrirkomulagi menntamála
Hér verður þess ekki freistað að gefa tæmandi yfirlit um öll þau lög
í menntamálum, sem Gylfi fékk sett í ráðherratíð sinni, enda hefur
hann sjálfur gert þeim góð skil í Vidreisnarárunum. A hinn bóginn
verður drepið á nokkur þeirra, einkum sum stærstu og mikilvægustu
málin. Þau voru umfangsmikil og nauðsynlegt að vanda vel til verka.
Virðist sem Gylfi hafi lagt áherzlu á að kalla til samráðs hverju sinni
þá forstöðumenn og sérfræðinga, sem honum fannst eðlilegt að fengju
tækifæri til að leggja sinn skerf af mörkum við lagasmíðina. Það
verklag hefur vafalaust stuðlað að gagnkvæmum skilningi og aukinni
samstöðu og greitt fyrir gangi mála. Minnugur sinna fyrstu skrefa á
Alþingi hefur hann áreiðanlega ekki talið „útilokunarleiðina“ heppilega
verklagsreglu.
Sennilega munu margir líta svo á sem allsherjarendurskoðun á gömlu
fræðslulögunum, er hófst á öðru kjörtímabili viðreisnarstjórnarinnar,