Andvari - 01.01.2009, Page 70
68
SIGURÐUR E. GUÐMUNDSSON
ANDVARI
því, enda myndu þingið og þjóðin þurfa á honum að halda á næsta
kjörtímabili. En hann hafði gert upp hug sinn og því varð ekki breytt.
Samt hafði hann ekki látið af stjórnmálaafskiptum, heldur tók nú að
rita dagblaðagreinar um atvinnumál, einkum málefni landbúnaðar og
sjávarútvegs. Eins og fyrri daginn blöskraði honum um margt ranglætið
og ráðdeildarleysið í rekstri atvinnuveganna og reyndi að leiða mönnum
fyrir sjónir hvernig breytt skipulag væri bæði réttlátara og einstakl-
ingum og þjóðarbúinu hagstæðara. En það var eins og að klappa
steininn, lengi vel, þótt málflutningur hans nyti góðs skilnings meðal
almennings.
Þeir voru ófáir, fundirnir í flokksstjórn og á flokksþingum, þar sem
hann fór í saumana á flóknustu þáttum efnahagsmála og fjármála og
útskýrði þá svo vel, að oftsinnis var því líkast sem hann væri í kennslu-
stund í Háskólanum. En hann gekk ekki með neinn „kennara-sjúkdóm“.
Á fundunum var hann ekki kennari, sem vildi innprenta „nemendum“
sínum ótvíræðan sannleik og ráða afstöðu þeirra, heldur var hann að
skýra og upplýsa svo að fundarmenn mættu öðlast sem beztan skiln-
ing á því, sem hann var að tala um. Skýr framsetning hans á erfiðum
viðfangsefnum auðveldaði mönnum að gera upp hug sinn og í því sam-
hengi var honum síðan einkar lagið að koma á samkomulagi og sáttum,
þyrfti á því að halda.
Þótt styr hafi staðið um Gylfa í Alþýðuflokknum framan af árum,
hvarf hann er jafnvægi komst á og góður friður varð með mönnum um
miðjan sjötta áratuginn. Þá voru líka stóru ágreiningsefnin í utanrík-
ismálum að baki og samlyndi forystumanna annað og betra en stundum
áður. Ekki er betur vitað en þingmönnum flokksins og ráðherrum hafi
samið vel á þeim tíma og síðar og þeir stutt hver annan eftir mætti.
Gylfi ber þeim öllum vel söguna í Viðreisnarárunum, en þegar á allt
er litið hefur sennilega enginn verið honum betri bandamaður og meiri
bakhjarl í Alþýðuflokknum en Haraldur Guðmundsson, allt frá upp-
hafi.
Alla tíð virtu flokksmenn Gylfa fyrir góðar gáfur, mikla menntun og
gríðarlega atorku og dugnað. Auðvitað voru menn óánægðir með flokk-
inn ef illa gekk og eins ef gera þurfti erfiðar ráðstafanir í efnahags- og
verðbólgumálunum, enda stíga forystumenn sjaldnast dansinn á rósum.
En þótt gæfi á bátinn var hann bæði vel látinn og mikils virtur og naut
órofa trausts félaga sinna. Þegar litið er til baka er Gylfi Þ. Gíslason
í fremstu röð íslenzkra jafnaðarmanna á síðustu öld, ásamt þeim