Andvari - 01.01.2009, Page 102
100
HANNES BJÖRNSSON
ANDVARI
bóknámi. Stefán Gunnlaugsen sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu bauðst síðar
til að kenna honum og undirbúa undir Bessastaðaskóla og var Hannes honum
ætíð þakklátur fyrir það. Hann settist á skólabekk 1831. Þá var hann 22 ára
að aldri, en skráði sig sem 19 ára gamlan, fæddan 1812, þar eð sérstakt leyfi
þurfti til að hefja skólavist eftir tvítugt. Bræður hans munu hafa gert það sama
og þetta var ekki óalgengt ef marka má sögu Matthíasar Jochumssonar sem
gerði þetta einnig.24
Hannes var lítið gefinn fyrir hefðbundnar íþróttir skólasveina, en naut sín
sérstaklega vel í kappræðum. Hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla 1837 með
góðum vitnisburði og sigldi sama ár utan til háskólanáms í Kaupmannahöfn.
Hafnarárin urðu tíu og fyrir fátæktar sakir25 þurfti Hannes að fá námsstyrki
og vinna með námi sínu. Hann bjó í lélegu herbergi á Larsleierstræde hjá
frú Anton sem síðar varð tengdamóðir hans. Þar hékk mynd af Hegel á vegg
og Benedikt Gröndal26 greinir skemmtilega frá því hvað Hannes og Magnús
(frater) Eiríksson27 höfðu ólíka sýn á Hegel. Magnúsi frater fannst agalegt að
sjá hann á veggnum en húsráðandi „hélt hann mætti hanga“. Hannes tók þátt
í samverum íslendinga,28 var einn Fjölnismanna29 og vel að sér um það helsta
í höfuðborginni. Tvö ár vann hann utan Kaupmannahafnar við barnakennslu
og öll hin árin veitti hann stúdentum tilsögn í heimspeki.30 Aðalnámsgrein
hans var guðfræði og lauk hann embættisprófi 1847. Hann var áfram í
Kaupmannahöfn næsta vetur við heimspekikennslu en heimspekina lærði
hann hjá F. C. Sibbern (1785-1872). Sibbern kenndi heimspeki og sálfræði við
Kaupmannahafnarháskóla frá 1813 til 1870 og er talinn einn mesti heimspek-
ingur Dana.31 Hann var meðal annars lærifaðir Sörens Kierkegaard, forveri
Haralds Höffdings og mikilvirkur rithöfundur. Sibbern var það áberandi í
dönsku menntalífi og þjóðfélagsumræðu að til þess var tekið. Það mun hafa
verið haft á orði í Kaupmannahöfn að „Naar man raaber i Skoven, saa svarer
Professor Sibbern“.32
Hannes kvæntist Louise Georgine Caroline Andrea Anthon (Arnesen)
(1815-1868) árið 1848 við heimkomuna til íslands og var það Helgi G.
Thordersen biskup sem gaf þau saman. Þann 5. nóvember á sama ári vígðist
Hannes til Staðastaðar eftir að hafa verið veitt embættið um vorið. Það hafði
áður verið vonarbrauð Jens Sigurðssonar sem hafði sleppt því, án þess að fara
til þess. A sama tíma fékk Hannes setningu fyrir kennslu við Lærða skól-
ann í Reykjavík og hóf þá kennslu um haustið. Dvölin á Staðastað varð því
stutt.33 Við kennslu hans í Lærða skólanum (steinafræði og dýrafræði) bættist
kennslan í heimspekilegum forspjallsvísindum (sálarfræði og hugsunarfræði,
þ.e. sálfræði og rökfræði) sem annar lektor við Prestaskólann og fékk Hannes
veitingu fyrir báðum kennslustöðunum 1850.
Það verða nokkur skil í æðri menntun á landinu með þessari kennslu 1848.
Þegar Læknaskólinn kom til skjalanna árið 1876 og Lagaskólinn árið 1908