Hugur - 01.01.2006, Blaðsíða 125
Ritgerðin endalausa
123
forðast að líta svo á að höfundar þessir og verk þeirra heyri að fullu og öllu
fortíðinni til, heldur ber að umgangast þá eins og samtímamenn okkar sem
bjóða okkur að leggja þeim lið í viðleitni sinni. Hvernig má það verða?
Hvernig verðum við virkir þátttakendur í frumspekilegri viðleitni heim-
spekilegrar hugsunar? Nánar tiltekið, hvert er það meginhugðarefni þessarar
hefðar sem við þurfum að taka upp og gera að hugðarefni okkar til að við
megum teljast virkir þátttakendur í hefðinni?
Eg er ekki viss um að ég geti lýst því með góðu móti. Að vissu leyti hefiir
sérhver þátttakandi þessarar hefðar sinn eigin hátt á að lýsa henni og tjá
hana. Ástæða þessa er sú að frumspeki er ekki aðeins almenn viðleitni, verk-
efni sem öllum er boðið að taka þátt í, heldur er hún líka einhvers konar per-
sónulegt ákall, eða öllu heldur köllun, sem hver og einn hlýtur að svara með
sínum hætti. Ein leið til að orða hugðarefni frumspekinnar er að segja hana
fást við hinstu rök eða endanlegan grundvöll merkingar og sannleika, eða,
nánar sagt, hún fæst við það hvernig klæða megi grundvöll alls í heiminum
og grundvöll heimsins sjálfs í hugtök þannig að ekkert sem skiptir sköpum
sé látið ósagt.
Nú er það svo að þessi viðleitni - þessi orðræðubundna eða fræðilega þrá
eftir hinum endanlega grundvelli, eftir Logos allrar rökfræði, aUra raka, allrar
merkingarbærrar orðræðu og umræðu - hefiir allt frá því að hún tók á sig
ákveðna mynd hjá Platoni vakið upp fjölmargar gagnrýnisraddir sem láta sér
ekki nægja að kalla hana barnalega tilraun sem sé dæmd til að mistakast,4
heldur bæta því við að hún sé algjörlega merkingarlaus, ekki einvörðungu von-
laus heldur einnig fáránleg, á sama hátt og brjálæðingur endurtekur sömu at-
höfnina æ ofan í æ án þess að gera sér grein fyrir því að ekkert hlýst af henni.
Auðvitað eru flestir heimspekingar dagsins í dag ekki brjálæðingar; þeir
eru ekki þeirrar trúar að þeir muni finna hinn endanlega Logos eða grundvöll
alls þess sem grundvallað verður. En sumir heimspekingar túlka þetta svo að
hugðarefni frumspekinnar komi ekki lengur heimspekinni við og að heim-
spekingar ættu aðeins að láta sig kenningar og hugtök varða, en ekki merk-
ingu tilverunnar eða raunveruleikans.
Derrida er ekki brjálæðingur og rétt eins og flestir samtímaheimspekingar
trúir hann því ekki að við getum fiindið hinn sanna Logos heimsins. Það
þýðir hins vegar ekki að hann varpi hugðarefni frumspekinnar fyrir róða.
Þvert á móti telur hann hugðarefni hennar brýnustu þraut allrar alvöru
heimspeki, þá þraut sem hefiir gengið eins og rauður þráður gegnum sögu
heimspekinnar allt frá því að Platon lagði fram hina stórbrotnu frummynda-
kenningu sína þar sem frummynd hins góða trónir í miðju. Atrennan að
grundvallarsannleika alls sannleika er að mati Derrida það sem hefiir haldið
heimspekinni við efnið, og gerir það enn, hvort sem okkur er það ljóst eða
ekki. Ennfremur varpar Derrida fram kenningu um megineinkenni þessarar
4 Samanber til dæmis hina frægu ræðu Kallíklesar yfir Sókratesi 1' samræðunni Gorgíasi. Sjá Plat-
on, Gorgtas, Eýjólfur Kjalar Emilsson þýddi (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 1977),
s. 112-119.