Hugur - 01.06.2010, Blaðsíða 78
76
Guöbjörg R. Jóhannesdóttir
Með hugtakinu hold virðist Merleau-Ponty vilja leggja áherslu á hvernig mörk-
in á milli mín og veruleikans, og á milli mín og annarra sjálfsvera, eru óljós og
flæðandi. Hold er þetta flæði sem skapar heiminum merkingu, flæði merkingar
sem við sköpum í samskiptum okkar við veruleikann og skynjun okkar á honum.
Eins og áður sagði lýsti Merleau-Ponty í „Eye and Mind“ hvernig sambandi
okkar sjálfsveranna og heimsins er háttað með því að skoða það í gegnum sam-
band málarans við heiminn sem hann skapar úr. Málaralistin gegnir þarna því
hlutverki að skýra fyrir okkur í hnotskurn hvað það er sem gerist á mifli okkar
og heimsins í reynslu okkar og slcynjun. Öll reynsla, skynjun og túlkun á veru-
leikanum verður til í einhverskonar samspili á milli hinnar líkamlegu sjálfsveru
sem skynjar, og veruleikans sem varpar sér á einhvern hátt á skynjunina. Sjálfs-
veran horfir á heiminn, og um leið horfir heimurinn á hana, það er þegar augu
þeirra mætast sem veruleikinn birtist okkur. Þessa hugsun getur verið erfitt að
meðtaka og það er e.t.v. þess vegna sem Merleau-Ponty velur að nota málara-
listina sem skýringardæmi. Margir málarar hafa sagt að heimurinn horfi á þá eins
og þeir horfa á heiminn:
Það er ástæðan fyrir því að svo margir málarar hafa sagt að hlutirnir horfi
á þá. Eins og André Marchand hafði eftir Klée: „I skóginum hefur mér
oft fundist að það hafi ekki verið ég sem horfi á skóginn. Suma daga
fannst mér trén vera að horfa á mig, að tala við mig... Eg var þarna,
hlustandi... Eg held að heimurinn hljóti að brjótast inn í málarann í stað
þess að málarinn vilji brjótast inn í heiminn... Ég býst við því að verða
kaffærður, grafinn innra með mér. Ef til vill mála ég til að brjótast út.“
Við tölum um innblástur og við ættum að skilja orðið bókstaflega. Það
á sér í raun og veru stað innblástur og útblástur verundarinnar [...] það
verður ómögulegt að greina á milli þess sem sér og þess sem er séð, þess
sem málar og þess sem er málað.12
Þegar málarinn skapar list sína horfir hann á og meðtekur veruleikann í kring-
um sig og breytir honum í málverk, hann breytir honum í mynd af túlkun sinni
og reynslu af veruleikanum. Ef við tökum orðið „innblástur" bókstaflega eins og
Merleau-Ponty mælir með þá getum við sagt að veruleikanum sé blásið inn í
málarann sem meðtekur hann og klæðir í skynjun sína. Málverkið samanstendur
af veruleikanum og skynjun málarans, veruleikinn leikur sitt hlutverk í útkom-
unni, hann blæs sér inn í skynjun málarans, og skynjunin leikur sitt hlutverk
líka, í gegnum hana dregur málarinn upp ákveðna mynd sem varpar ljósi á eina
mögulega hflð veruleikans.
En hvers konar hugmynd um fegurð er hægt að leiða af þessari verufræði holds-
ins? Að mati Johnsons er fegurð í fyrirbærafræðilegum skilningi ekki eiginleiki
hlutar heldur reynsla sem á sér stað á milli hlutarins og þess sem uppflfir hann.
12 Maurice Mcrleau-Ponty. 1961A993. „Eye and Mind“ í Ihe Merleau-Ponty Aesthetics Reader: Phi/o-
sophy and Painting. Ritstýrt af Galen A. Jolinson. Evanston, Illinois: Northwestern University
Press. Bls. 129.