Hugur - 01.06.2010, Blaðsíða 100
98
Erlendur Jónsson
okkar íyrir Leonardo sem snillingi, sögulegri tilfinningu okkar eða einhverjum
öðrum kenndum sem ekki eru hluti af listinni sem slíkri. Kjarni listaverks eins og
Mónu Lísu sem listaverks hlýtur að felast í myndsköpuninni sjálfri, í því hvernig
litum er komið fyrir á striga, blæbrigðum þeirra, pensilstrokum o.s.frv. Og þessi
kjarni myndi varðveitast í mjög fullkominni eftirlíkingu.
Eg tel því, og það er meginniðurstaða þessarar greinar, að við getum fullyrt að
listaverk, hvort sem það er myndlistarverk, bókmenntaverk eða tónlistarverk, sé í
innsta eðli sínu formgerð er hefur ákveðna menningarlega og félagslega stöðu, er
flutt í ákveðnum miðli, á upptök sín í sköpunarkrafti listamanns og tjáir einhvers
konar „hugsun“ eða er „gluggi" á sál listamannsins.
En jafnvel þótt litið sé á myndlistarverk sem formgerðir eins og tónlistar- og
bókmenntaverk er ekki hægt að horfa framhjá því að mjög mikilvægt atriði greinir
myndlistarverk frá síðarnefndu listformunum, en það er að tónlist og bókmennt-
ir krefjast flutnings af einhverju tagi, andstætt hefðbundnum myndlistarverkum
eins og málverkum og myndastyttum. Þetta er atriði sem við þurfum að huga að
næst.
Það að segja að listaverk sé hlutur af ákveðnu tagi merkir að nauðsynlegt er
að tiltaka samsemdarkvarða (e. identity criterion) fyrir verkið: hvenær er um sama
listaverk að ræða? Við höfiim sett fram eftirfarandi samsemdarkvarða fyrir lista-
verk: a og b eru sama listaverk (málverk, tónverk eða bókmenntaverk) ef i) a og
b hafa sömu formgerð (í einhverjum skilningi), 2) a og b hafa orðið til við sama
atburð, þ.e. listræna sköpun, 3) a og b hafa sömu félagslegu eða menningarlegu
stöðu í umhverfi okkar, og 4) a og b tjá það sama (í ákveðnum skilningi).
IX
Tónlistar- og bókmenntaverk eru stundum kölluð „fjöllistaverk“ (e. multiple
artworks) andstætt myndlistarverkum sem þá eru sögð vera „einlistaverk“ (e. sing-
ular artworks).19 Þetta eru í raun villandi nafngiftir, þar sem tónskáld skapar í
hvert skipti aðeins eitt tónverk; þegar Beethoven samdi Eroica skapaði hann að-
eins eitt listaverk, nefnilega sinfóníu nr. 3 í Es-dúr. Óhætt er að fullyrða að hefði
Beethoven verið spurður um það hversu mörg tónverk hann hefði samið er hann
samdi Eroica hefði hann að sjálfsögðu að öllum líkindum svarað „eina sinfóníu!".
Þegar Beethoven samdi Eroica bjó hann til formgerð sem lýst er á allnákvæman
hátt í handriti hans, þ.e. einstakar nótur, hljómar, þagnir, taktur, styrldeikabreyt-
ingar, hraði og eitthvað fleira er tiltekið. En tónskáld gerir sér grein fyrir að þar
sem hver flutningur verks er atburður sem gerist í tíma og rúmi hlýtur að vera
ákveðið svigrúm fyrir mismunandi flutning tónverks, það hlýtur alltaf að vera
einhver munur á hraða, styrkleika og mörgum fleiri atriðum. Einn flytjandi getur
hægt örlítið á á einum stað þar sem annar flytjandi heldur jöfnum takti, einn
getur aukið styrkleikann örlítið eða leikið veikar þar sem annar heldur jöfnum
styrkleika, og tempóið getur verið mismunandi jafnvel hjá sama listamanni við
19 Sjá t.d. Rohrbaugli (2005), 2. gr.,Thomasson (2004), bls. 87, Davies (2003), 2. gr., bls. 156-165.