Hugur - 01.06.2010, Blaðsíða 186
184
Hlynur Orri Stefánsson
sem endurspeglar hvernig hann metur hvern kost í samanburði við annan. Að
því gefnu að langanir einstaklings uppfylli ákveðin skilyrði,8 þannig að hægt sé
á grundvelli þeirra að raða öllum kostum sem hann stendur frammi fyrir í sam-
fellda röð sem ekki leiðir í fykkju eða hring,9 og hann er skynsamur og vel upp-
lýstur þannig að hann velur það sem hann í raun vill (sem útilokar ekki að hann
vilji helst það sem hann telur vera einhverjum öðrum fyrir bestu), þá er hægt að
leiða af vali hans nytjafall og lýsa öllum ákvörðunum hans sem tilraunum til að
velja hæsta gildið (eða hámarka nytjar sínar).
Af þessu sést að hugtakið „langanir" er hér notað í þrengri skilningi en í hefð-
bundinni málnotkun. Langanir í ákvörðunarfræði og velferðarhagfræði vísa ávallt
til þess hvernig einstaklingur metur kost í samanburði við aðra kosti — enda er
styrk löngunar einungis hægt að mæla í samanburði við aðrar langanir, eins og
síðar verður vikið að. Af þessum sökum hafa heimspekingar sem skrifa á ensku
um ákvörðunarfræði og forsendur hagfræðinnar gjarnan einskorðað sig við að
nota orðið „preference" (sem lýsir vilja til einhvers frekar en annars) um það fyrir-
bæri sem stjórnar ákvörðunum skynsamra einstaklinga, öfugt við starfsbræður
þeirra innan hagfræðideilda sem stundum tala um „want“ (löngun), „desire“ (þrá)
og jafnvel „need“ (þörf). I þessari grein verður engu að síður notast við „löngun“,
en lesendur beðnir um að hafa í huga að með því er í flestum tilfellum átt við mat
einstaklings á gildi þess fyrir hann, eða þá sem skiptir hann máli, að einn kostur
verði að veruleika frekar en annar.10
Nytjafall sem leitt er af vali einstaklings á milli hversdagslegra kosta táknar
það sem kalla mætti einfalda valröð, þar sem gildin sem fallið gefur hverjum kosti
tákna einungis það sæti sem kosturinn hefirr í röðinni, en ekki hversu langt er
á milli kosta eða m.ö.o. hversu mikinn mun viðkomandi telur vera á kostunum.
Með því að sjá til dæmis að skynsamur og vel upplýstur einstaklingur veluryí þeg-
ar hann stendur frammi fyrir vali á milli A og B en B þegar hann stendur frammi
fyrir vali á milli B og C, getum við ályktað sem svo að hann vilji A frekar en B
og B frekar en C, en við getum engar ályktanir dregið um styrk löngunar hans,
þ.e. hversu mikið hann langar í A umfram hina kostina. Með hjálp aðferðar sem
John von Neumann og Oskar Morgenstern þróuðu í sameiningu11 getum við hins
vegar leitt út svokallað vNM-nytjafall sem táknar það sem mætti kalla fullkomna
valröð, þar sem gildin sem hver kostur um sig fær endurspegla hversu langt er á
milli kostanna í mati einstaklingsins á þeim. I grunninn er hugmyndin sú að við
mælum styrk löngunar út frá þeirri áhættu sem viðkomandi er tilbúinn að taka
til að fá henni fullnægt. Með því að bjóða einstaklingi einskonar lottómiða sem
8 Sjá umfjöllun um skilyrðin í Shaun Hargreaves Heap o.fl., 'Ihe. Theory of Choice:A Critical Guide
(Oxford: Blackwell Publishers, 1992), 5-7.
9 Röðin leiðir t.d. í liring ef einstaklingurinn vill ís frekar en súkkulaði og súkkulaði frekar en
hlaup, en vill samt hlaup frekar en ís.
10 í Hagfrœbioröasafni, sem tekið er saman af orðanefnd Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga,
er enska orðið „preference" þýtt sem „vild“ (sjá http://www.ismal.ht.is/ob/uppl/hagfr.html). Þar
sem um er að ræða ofur-hversdagslegt fyrirbæri tel ég hins vegar æskilegra að nota hversdagslegra
hugtak ef kostur er.
11 John von Neumann og Oskar Morgenstern, Theory of Games and Economic Behavior (Princeton:
Princeton University Press, 1944).