Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2003, Blaðsíða 28
ÁLFRÚN GUNNLAUGSDÓTTIR
mörg bjargráð að finna, það áhrifaríkasta að stunda yfirbót og meinlæti og
þá helst með því að loka sig ffá öðrum. Þeir sem hugsuðu öðruvísi en
kirkjan bauð hegðuðu sér auðvitað öðruvísi og gengu með þ\ í í berhögg
við hana. Þeir þurftu ekki að bíða efdr logum Vítis, bál sem tendrað var
héma megin grafar svelgdi þá í sig fyrr en varði.
Hegðun og hugsun fylgjast gjarnan að. Það vissi kirkjan og taldi sig
eiga lögsögu í hugarheimi manna, áskildi sér rétt til að kenna þeim að
hugsa kórrétt, ráða því hvað þeir vissu eða vissu ekki, læsu eða læsu ekki,
því að umfram allt áttu þeir að ástunda rétta trú. Enn þann dag í dag set-
ur að fólki hroll þegar það heyrir Rannsóknarréttinn spænska nefhdan,
sem settur var á laggirnar til höfuðs trúvillingum og björgunar sálum
þeirra.
I heimi kirkjunnar stóð valið milli góðs og ills. Það stendur enn, en
kirkjan hefur ekki sömu ítök og áður. Allt þetta heyrir því sögunni til.
Skyldi maður æda.
Við nánari athugun renna samt á mann tvær grímur. Forsjárhlutverki
stofnana er engan veginn lokið. Nýjar kirkjur hafa verið reistar, það er
ekki lengur ein stofhun sem situr að krásinni eins og fyrrum, margar
berjast um hugi og hjörtu manna og vilja hafa hönd í bagga með líferni
þeirra.
Það byrjaði með húmanismanum. Hann tók sér fyrir hendur að beina
sjónum að hinu mannlega og færði með því líf mannsins nær jörðinni.
Handanvistin hélt þó sínu mikilvægi, en hérvistin fékk sitt vægi líka og
þegar tímar liðu tók hún að bólgna út á kostnað þeirrar fyrri, þangað til
menn hættu að miða líf sitt eingöngu við það sem við tæki að því loknu.
Líf manns hér og nú varð þess virði að lifa því vegna þess sjálfs og einskis
annars. Unaðarins þurfti ekki að bíða þangað til kornið var hinum inegin,
hann bjó í líkamanum, og kannski einvörðungu í honum. Enginn hlust-
aði lengur andaktugur á skipanir ofan úr prédikunarstóli þess efiiis að
hann ætti að uppfylla jörðina. Og að lokum var svo komið að hið gagn-
stæða varð uppi á teningnum. Ef maðurinn tók ekki upp á þU sjálfur var
hann beðinn um af ýmsum stofnunum eða jafnvel skipað með valdboði
að stemma stigu við öllu slíku, nóg væri af fólkinu samt. Það er því ekki
fjarri lagi að segja að börn séu enn getin í synd. Ekki fyrsta barnið
kannski, en hugsanlega annað og áreiðanlega hið þriðja. Að eignast mörg
börn þykir nú á tífnum bera vott um hömluleysi, dómgreindarskort og að
kunna ekki þá list að skipuleggja líf sitt.
2 6