Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2005, Blaðsíða 115
ÍSLENSKA OG ENSKA
vöndun í heiðri, svo sem í Morgunblaðinu og Ríkisútvarpinu. Elsta dæm-
ið um þetta orð í gögnum Orðabókar Háskólans er frá 1982.
I ljós kemur að mikill munur er milli orðapara, og hann virðist endur-
spegla aldur nýyrðisins, eins og sjá má á mynd 2. Þar má sjá að eldri orð-
in lífuörður og hönnun eru allt að því einráð, en þegar valið stendur á milli
orðanna tölvupóstur og e-mail er staðan allt önnur. Hér er nokkuð jafht á
komið með valkostunum, því 46,7% viðmælenda segjast nota orðið
tölvupóstur og 42,6% segjast nota orðið e-mail, en 10,7% segjast nota
hvort tveggja. Það ríkir sem sé samkeppni milli þessara orða. Síðar í þess-
ari grein fáum við að sjá að mikill munur er milli kynslóða hvað varðar
notkun orðanna e-mail eða tölvupóstur, og einnig er áhugaverður munur
á svörum kynjanna.
Hér má rifja það upp að íslenskt málsamfélag hefur áður staðið frammi
fyrir álíka valkostum, t.d. þegar ólík orð fyrir ‘helicopter’ börðust um
hylli málnotenda. Þá voru meðal frambjóðenda í baráttunni tökuorðið
helikopter (helíkofter, helíkopter) og styttdngin kofti, og íslenskar nýmynd-
anir á borð við þyrilvœngja eða þyrla. I því tilviki var það þyrla, stytting á
nýyrðinu, sem fór með sigur af hólmi. Það verður fróðlegt til saman-
burðar að sjá hvernig einvíginu milli orðanna tölvupóstur og e-mail (ímeil
eða meil) lyktar.
4 Um viðbrögö félagshópa.
Ætla má að fyrir þá sem spá vilja um framtíðarþróun í félagslegum efn-
um, eins og málefni tungunnar hljóta að teljast, sé vænlegt að huga að
þeim straumum sem ríkja í nútímanum. I þessum kafla verður því sagt
nokkuð frá viðbrögðum ólíkra félagshópa við spurningum í könnuninni.
Þær félagslegu breytur sem einkum verður hugað að eru kyn, aldur,
tekjur, menntun og búseta. Fróðlegt er að spyrja hvort konur og karlar,
ungir og gamlir hugsi líkt eða ólíkt, eða hvort aðstæður og kjör þeirra
sem nota ensku séu önnur en þeirra sem ekki nota hana. Einnig verður
lauslega hugað að mismunandi viðbrögðum viðmælenda eftir því hvort
tölva er á heimilinu og eftir því hvernig þeir svara spurningum um
stjórnmálahugsjónir. Reynt verður að flokka viðbrögðin í Ijósi þrískipt-
ingarinnar sem fjallað var um í 3. kafla í umdæmisspurningar, formrækt-
arspurningar og orðnotkunarspurningar, þótt erfitt geti reynst að fylgja
þessu út í æsar.