Tímarit Máls og menningar - 01.05.1973, Qupperneq 65
Út dagbók (II)
með geislabauginn um ennið meðan Ólafur Thórs hefur hann fyrir sokka-
band. - Á himnum ríkir hið ósagða. Ó, Stína, komdu í vals. Ég er engill jök-
ulsins, þar sem snjórinn er hvítur eins og skjall. Hitt er náttúrlega satt, við
þurfum að eignast fleiri kindur. Upp upp mín sál. Ó hjú ó hæja. Klárir til
með stagfokkuna elskurnar mínar. Ó hjú, ó hæja. - Og hann stökk af rúmi
á rúm um þvera og endilanga deildina syngjandi grænlenzku svo það var
enginn friður, en allt í háa lofti, þangað til hann fékk sprautu í rassinn og
ég gat svæft hann í faðmi mér.
Einn dag gerðist það svo allt í einu, að hann var farinn að spegla sig, það
hafði hann aldrei gert áður, og hann var farinn að liggja hljóður í rúminu
og líta í kringum sig. Hann var að breytast í annan mann sem ég þekkti ekki.
- Engin hlaup Iengur. Engin skáldleg skringilegheit. Enginn Jónas og enginn
Ólafur Thórs. Ekkert Ó hjú, ó hæja. Enginn jökull eða kindabú. En mér
sýndist hann stundum eins og dálítið raunamæddur. Færi ég þá að tala við
hann, varð hann aftur léttur í máli og við horfðum báðir í sömu áttina. Hann
var að komast yfir sjúkdóminn. - Og hann fór að klæða sig og fara með mér
í gönguferðir. Þunglyndis gætti ekki í fari hans. Og hann fór að vinna í
garðinum einn síns liðs og virtist una sér hið bezta. - Svo var það, einhverju
sinni, að ég gekk mig til hans og fór að spjalla við hann um daginn og veg-
inn. Allt í einu segir hann og dálítillar depurðar kennir í röddinni: Viltu
fyrirgefa mér Jón, hvað ég hef verið þér erfiður? Ég sagði: Svona máttu
ekki tala. Þú varst veikur og enginn getur gert að því, þó hann veikist. Mér
var falið að vera hjá þér veikum . . . Það er nú einusinni atvinna mín, að
vera hjá því veika fólki sem hér er, og sé hér um einhverja fyrirgefning að
ræða, ætli það sé þá ekki frekar ég sem ætti að biðjast afsökunar. - Annars
fór nú allvel á með okkur, eða er það ekki? Hann brosti góðlátlega og sagðist
kannski ekki muna svo glöggt hvernig þetta hefði verið, en áhugamál var það
honum að ég segðist fyrirgefa. Ég bað hann blessaðan að hætta svona hug-
leiðingum, og hann þagði við, og við tókum upp léttara tal. í svip hans sá
ég nú ekkert sem benti til hugarangurs og við kvöddumst glaðlega. - Síðan
liðu nokkrir dagar. Þá var það eitt kvöld, að hans var saknað á deildinni.
Það var hafin leit í nálægð spítalans, en hún bar ekki árangur. Nema, morg-
uninn næsta fannst hann hengdur niðri í Defensor.
Svona getur verið erfitt að lesa fólk.
Nei, allt þetta fullorðna fólk sem ég mæti á götunni, allt er það mér blá-
ókunnugt eins og sú hók sem ég hef aldrei opnað. En það er skemmtilegt að
mæta því þó smáfuglarnir séu kannski ennþá skemmtilegri.
55