Skírnir - 01.01.1960, Blaðsíða 55
Skírnir
Menningarsamband Þjóðverja og Islendinga
53
lung satirischer Schriften“ og hafði sérstöðu í þýzkum bók-
menntum. Önnur þýzk skáld þessa tímabils höfðu einnig
áhrif á Magnús Stephensen eins og t. d. Joh. Chr. Krúger, er
upprunalega var guðfræðingur, en gerðist leikari og var eins
og Rabener eins konar siðapostuli.
Við komum nú að rómantíska tímabilinu í íslenzkum bók-
menntum. Það hófst með tímaritinu „Fjölni“, er íslenzkir
stúdentar í Kaupmannahöfn stofnuðu. Þýzku skáldin Schiller,
Heine og Tieck urðu kunn Islendingum með Fjölni. Raunar
hafði Bjarni Thorarensen áður þýtt Riddaraljóð úr „Wallen-
steins Lager“ eftir Schiller, en fyrst með Fjölni má segja, að
áhrif rómantisku stefnunnar yrðu kunn. Jónas Flallgrímsson
og Konráð Gíslason þýddu Eggert glóa, ævintýri eftir Tieck;
sögur eftir J. P. Hebel birtust i Fjölni, og þar birtist einnig
„Dunar í trjálundi“, er Jónas þýddi úr „Die Piccolomini“
eftir Schiller og margs konar þýzkar bækur um náttúrufræði,
sögu, mannfræði og heimspeki voru ræddar þar, og bendir
þetta á hið nána samband, er útgefendur Fjölnis höfðu við
þýzkar bókmenntir. Grasaferð Jónasar sýnir áhrif frá Tieck,
og hrifningin er mikil í orðum litlu stúlkunnar í „Grasaferð“
Jónasar, er 13 ára piltur leiðir 15 ára frænku sína í grasa-
leit og er að ræða við hana um skáldskap og þar með þýðing-
una á Meyjargráti, en litla stúlkan verður kafrjóð og segir:
„Þú átt gott að geta skilið þjóðverskuna, og það væri vel gert
af þér að kenna mér dálítið líka. Mér er kvöl í að skilja ekk-
ert af því, sem þeir hafa gert, hann Schiller og aðrir á Þjóð-
verjalandi."
Schiller varð hugljúft skáld íslenzkrar æsku eins og í Þýzka-
landi. Af leikritum hans hafa verið þýdd Ræningjarnir, Mær-
in frá Orleans og María Stúart, og mjög mörg ljóð hans hafa
verið þýdd á íslenzku, svo að unnt var að gefa út myndar-
legt kver ljóða hans í íslenzkri þýðingu (1917). Að minnsta
kosti 15 skáld hafa þýtt kvæði eftir Schiller á íslenzku, og
má þar fremstan telja Steingrím Thorsteinsson, er þýddi mörg
sögukvæði hans, þar á meðal „Greifann af Habsburg“,
„Guði Grikklands“, „Kafarann", „Klukkuljóð“ o. fl. Á svip-
aðan hátt var unnt að gefa út L/óð eftir Goethe (1919) og