Skírnir - 01.01.1960, Blaðsíða 218
216
Ritfregnir
Skírnir
Jón Krabbe: Frá Hafnarstjórn til lýðveldis. Minningar fró löngum
embættisferli. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1959.
Höfundur segir i stuttum formála, að bókinni sé hvorki ætlað að vera
sjálfsævisaga né tilraun til sagnritunar, en hann væntir þess, að nokkurn
skerf til þjóðarsögunnar megi til hennar sækja. 1 þessum orðum höfundar
sjálfs felst hlutlægt mat á bókinni. Hun er ekki sjálfsævisaga. Til þess
er höfundur of dulur. Hann segir okkur hugleiðingar sínar um stjórnmál
og stjórnarerindrekstur, en hann vikur lítið að heimilislífi sínu og tilfinn-
ingalífi. Við kynnumst um fram allt embættismanninum Jóni Krabbe, en
lítið heimilisföðurnum og manninum eins og hann var í einkalífi sinu.
Bókin er heldur ekki þjóðarsaga. Til þess er hún of einhliða. Hún varðar
því nær eingöngu þau mál, sem fóru um hendur stjórnardeildanna i Höfn
og sendiráðsins. En allt um það er bókin merkilegt rit. Á hana ber fyrst
og fremst að lita sem heimildarrit. Hún verður ómissandi þeim sagnfræð-
ingum, sem síðar skrá þetta tímabil þjóðarsögunnar. Vafalaust má margt
af fróðleik bókarinnar finna í stjórnargögnum. En það, sem máli skiptir,
er, að hér kynnumst við viðbrögðum ýmissa þeirra, sem átt hafa þátt i
að skapa örlög íslands á þessu mikilvæga skeiði i lífi þjóðarinnar, en
stjórnargögn þegja oft um slika hluti. Höfundur gerir enga tilraun til
almennra mannlýsinga í bókinni, en hann reynir að skýra satt og rétt frá
afstöðu manna og framkomu við einstök tækifæri, og að loknum lestri
virðist mér, að ég skilji betur ýmsar persónur en ég áður gerði, geri mér
betur grein fyrir hugsunarhætti þeirra og afstöðu í ýmsum málum, og
ég efa ekki, að fleirum fer eins. Bókin vekur traust. Höfundur hefir enga
tilhneigingu til að níða einn né neinn. Hann litur samtíðarmenn sína og
samverkamenn góðlátlegum augum. En hégómaskap og hroka kann hann
ekki að meta, og verða þeir því einna verst úti, sem slíkum gáfum eru
gæddir.
Ekki leynir það sér, að höfundur hefir gert sér skýra grein fyrir þeim
málum, sem hann þurfti um að fjalla, og hann hefir myndað sér ákveðn-
ar skoðanir um þau. En stundum kom það í hlut hans að þurfa að túlka
önnur sjónarmið en hann fylgdi sjálfur. Og þá kom hin hlutlæga afstaða
hans vel í ljós. Hann hefir gert sér vel ljóst, að margt orkar tvimælis, að
andstæðingur hans í skoðunum gat einnig haft mikið til sins máls, og
hann hefir gert sér far um að skilja sjónarmið hans. Það er þessi eigin-
leiki meðal annars, sem hefir gert Jón Krabbe að jafnfarsælum embættis-
manni og hann reyndist. Þessi greindi, hégómalausi og eljusami sonur
Islands og Danmerkur hefir unnið móðurlandi sínu ómetanlegt gagn og
reist sér verðugan minnisvarða með riti sinu.
Pétur Benediktsson bankastjóri hefir þýtt bókina á lipurt íslenzkt mál.
Prófarkalestri er ábótavant.
Halldór Halldórsson.