Skírnir - 01.01.1969, Blaðsíða 169
SKÍRNIR
ÞINGVALLAFUNDUR 1888
163
var sá háttur á hafður, að í hreppum voru kosnir kjörmenn af
hreppsbúum, sem kosningarrétt höfðu til Alþingis. Síðan áttu kjör-
menn með sér sameiginlegan fund fyrir hvert kjördæmi og kusu þar
fulltrúa á Þingvallafund. Eins og fyrr segir hefur þessi tilhögun
kosninga vafalaust verið ráðgerð í bréfi Einarsstaðafundarmanna
26. marz. Hrepparnir kusu ýmist einn, tvo eða þrjá kjörmenn, en
ekki mun tala kjörmanna svo mjög hafa farið eftir kjósendafjölda
hreppanna, heldur eftir geðþótta þeirra, sem kusu. Kosningar kjör-
manna fóru víða fram að afloknum manntalsþingum eða hreppa-
skilum. Fundir þeir, sem kusu fulltrúa á Þingvallafund, eru í kjör-
gögnum stundum nefndir kjördæmisfundir.
Samkvæmt Þingvallafundarboðinu „og eftir nánari fyrirmælum
þeirra, er fundinn boðuðu“, eins og segir í hinum prentuðu Þing-
vallafundartíðindum, sendu kjördæmi þau, er til fundarins kusu,
þangað jafnmarga fulltrúa og þau höfðu alþingismenn, einn fulltrúa
fyrir einmenningskj ördæmi, tvo fyrir tvímenningskjördæmi. Víða
höfðu alþingismenn forgöngu um kosningu fulltrúa fyrir kjördæmi
sín.
Aðeins í einu kjördæmi, Vestmannaeyjum, var ekki kosinn fulltrúi
á Þingvallafund. Barðstrendingar kusu þingmann sinn, síra Sigurð
Jensson, en hann sótti ekki fundinn, enda var svo ráð fyrir gert í
fundarboðinu, að fulltrúar væru eigi alþingismenn.
Fulltrúar á Þingvallafundi voru 28, tveimur færri en þjóðkjörnir
alþingismenn, þar sem ekki voru fulltrúar úr kjördæmum þeim, er
nú var getið.
Nú verða taldir fulltrúar, sem kosnir voru á Þingvallafund 1888,
og stuttlega gerð grein fyrir kjörfylgi þeirra og stefnum þeim í
stj órnarskrármálinu, sem fram komu í kjördæmunum, svo sem séð
verður af kjörgögnum og öðrum heimildum. Einnig verður getið
varafulltrúa, þar sem þeir voru kosnir, en þess ber að gæta, að eng-
inn þeirra var í fulltrúa stað á Þingvallafundi, þar sem hinir kj örnu
fulltrúar sóttu hann allir að frá skildum síra Sigurði Jenssyni. Fylgt
verður sömu röðun kjördæma, sem höfð er í skjalaböggli þeim,
sem fyrr er getið að geymir frumgögn um Þingvallafundinn, þannig,
að byrjað verður á Borgarfjarðarsýslu, en síðan haldið vestur, norð-
ur og suður fyrir land til Reykj avíkur.
Fyrir Borgarfjarðarsýslu var Andrés Fjeldsted, óðalsbóndi á