Skírnir - 01.04.1991, Side 242
236
KRISTÍN BIRGISDÓTTIR
SKÍRNIR
sviðsmynd bæklingsins lífi. Takturinn í náttúru fortíðarinnar er flóknari en
Nínutaktur nútímans og upplifun hennar á fortíð formæðra sinna er á allan
hátt yfirþyrmandi; drekkjandi. Hún sér sjálfa sig meðal annars í „kafgresi“
(92) og reynir að forða sér frá „leirbrúnni efju“ (90), auk þess sem henni
þykir gróðrarlyktin sem Katrín amma hennar teygaði að sér vera kæfandi
(35). Þar sem Nína kúrir í háu grasinu finnst henni hún vera að missa vald á
lífi sínu; á náttúru nútímans. Sú mynd sem hún reynir að skapa af sínu eigin
lífi eftir að hafa sagt skilið við Arnar kemur hvað sterkast fram er hún sest
inn í bílinn sinn þar sem valdið er hennar: „Keimur af konu og vél.“ En sú
mynd hverfur eftir að hún fer að sitja yfir móður sinni: „en nautnin horfin,
nautnin sem fyllir mig alltaf þegar ég sest inn í þennan fullkomna hlut,
Jagúarinn, bílinn minn. Þess í stað Pyngjan, ólyktin, vælið“ (131). Pyngjan er
einn af kostgöngurum móður hennar og vakti viðbjóð hjá Nínu strax í
bernsku. Seinna þegar Nína skilur við Guðjón lögmann og er að skipta
búinu, gagnrýnir móðir hennar hana og lætur að því liggja að hún vilji hafa
sitt út úr hlutunum rétt eins og Pyngjan (113). Það var Nína sem hafði
uppnefnt þessa konu svo myndrænu nafni, en auk þess sem pyngja geymir
peninga stendur hún fyrir ótta Nínu við frjósemi sem leynist meðal annars í
kvenlegu holrúmi.
Nína lítur á fjölskyldu sína sem eina af sviðsmyndum lífs síns, rétt eins og
náttúru æskuslóðanna í ferðamannabæklingum. Hún stendur ekki fastari
fótum en það. Einhverja nóttina þegar þær systur vaka yfir móður sinni fer
Marta að rifja upp atvik í lífi þeirra. Hún minnist daðurs Nínu við Gústa,
mann hennar, en þetta var eftir að Nína kom heim úr utanlandsdvöl með
handrit sem enginn vildi gefa út. Heimkomunni fylgdi svo ringulreið og
drykkja: „Orvæntingarfull tilraun til að endurvekja tímann áður en Nína
labbaði út úr partíi með Guðjóni, áður en hún hélt út í heim, skildi sig frá
Arnari. Vissu það bæði, Nína og Helgi“ (168). I einu af þessum samkvæm-
um ræðst Helgi, bróðir Nínu, á Gústa og ásakar hann um lauslæti. En Nínu
finnst sem högg Helga séu ætluð henni og þótti sem hún væri þá fyrst að sjá
hvern mann hann hafði að geyma. Hann komst nær henni en Nínu þótti
ráðlegt, gerði hana berskjaldaða og hún kæfir þessa ógnandi nærveru bróður
síns með sinni einstaklega fáguðu kaldhæðni: „Bróðirinn sem alltaf studdi
við bakið á Nínu, upp á hverju sem hún tók - Illt þegar sviðsmyndin lifnar"
(122).
Nína klæðir sig í föt frá Cacharel, í ilmvatn og Jagúar, reynir allt til að loka
sig frá því sem gæti raskað valdi hennar yfir lífi sínu. I sambandi sínu við
Arnar varð Nína að lokum hrædd við að hverfa inn í hann og missa getuna til
að skrifa. Hún vill ekki verða „kona málarans" (57) eins og hún tekur til
orða en verður í staðinn kona lögmannsins. - Seinna segir hún við Söru
dóttur sína, að hjónaband sé ráð kvenna til að losna undan allri ábyrgð á eigin