Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 137
D ó m a r u m b æ k u r
TMM 2010 · 4 137
Við erum ekki nema hálfmenni ef við glötum arfi liðinna kynslóða sem fólginn
er í bókmenntum og listum. Um þetta vitna kannski öll ljóð þessarar nýju
bókar á einn eða annan hátt, en ljóðið sem situr fastast í minninu að lestri
loknum er „Þél höggr stórt fyr stáli“ (105). Línan er úr dróttkvæðri vísu eftir
Egil Skallagrímsson (sem skýtur upp kollinum oftar í bókinni) en hana orti
hann þegar hann hafði reist Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu níðstöng
„svo að landvættir færu villar vega, meðan þau stjórnuðu Noregi“. Og Matthías
óskar þess að hann kynni skil á rúnum eins og Egill því hann „hefði viljað beita
þeim gegn auðvaldinu og landvættum þess, / sýktu samfélagi …“ En ekki
aðeins erum við án rúnagaldurs, við eigum ekki einu sinni í önnur hús að
venda „þegar éla meitill og hafþjölin mikla sverfa óþyrmilega um stefni þjóðar
skútunnar, svo að vitnað sé í klisjukennda myndlíkingu stjórnmálamanna“.
Þessi strengur minnir á „Hrunadansinn“, harðsnúinn ljóðabálk um feigðar
flan peningamanna og ráðamanna sem Matthías birti í Morgunblaðinu árið
2006 en er nú kominn út á bók ásamt lestri Gunnars Eyjólfssonar á diski.
Sögur Gamla testamentisins eru honum nærri þegar hann fylgist með
hörmungum í Líbanon („Högl af himni“, 106), en þegar jörð skelfur í Pakistan
er það Völuspá sem hann grípur til (150). Hann minnir á Samuel Beckett, Ezra
Pound, T.S. Eliot, Solzhenítsyn, Kristján Fjallaskáld, vin sinn Stein Steinarr,
Zweig og Balzac, Jónas, Grím og Feuerbach og Magnús á Hrauni og ótalmarga
aðra, þekkta og lítt þekkta. En þetta eru áreynslulausar vísanir, Matthías gerir
ekki kröfu til lesandans um að hann þekki þetta allt, bara að hann taki á móti
opnum huga; fari kannski á netið og gái hver í ósköpunum þetta sé. Hann er
heldur ekki að segja okkur að mæta þessum gengnu snillingum með andakt.
Við eigum að virða þá, vissulega, en við eigum líka að vera gagnrýnin, velta
verkum þeirra fyrir okkur, tala við þá gegnum tíma og rúm.
Sérðu tunglið?
Þriðja erindi þessara ljóða er að brýna fyrir lesendum að njóta náttúrunnar,
horfa á hana á hverjum degi, fylgjast með því sem gerist frá degi til dags, jafnvel
í borginni má heyra í fuglum, horfa á trén laufgast á vorin og missa laufið á
haustin, fylgjast með litbrigðum Esjunnar. Dýrindis dæmi um þennan þátt er
„Ágústveður í Laugardal“ (124). Meira að segja skordýrin fá sínar línur, ekki
síst eftirlætisskordýr Matthíasar: „… og kónguló gengur við vef sinn að verki /
og visnaðri bráð“ („Morgunljóð í gróandanum“, 127). Í ljóðabálknum fremst í
Bók III, „Við eyjar blár“, býr hann til flókna myndhverfingu af ástinni með því
að láta kónguló spinna „vírsterkan vef“ utan um tvo vængjaða einstaklinga:
„tvær hugmyndir guðs / að einni hugmynd / um ást“ (162).
Fjórða meginerindi þessarar bókar varðar einmitt ástina.
Þegar þessi bók var í vinnslu stóð Matthías enn á tímamótum. Í apríl 2009
lést eiginkona hans og lífsförunautur eftir stutta sjúkralegu. Það er kannski
óviðeigandi að segja frá því en þegar ég hugsaði um Matthías og Hönnu kom
mér í hug atriði úr bresku bíómyndinni Notting Hill. Aðalpersónur myndar