Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Page 33
Á s t a r b r a u t i n í Ú t e y
TMM 2018 · 3 33
Guðmundur Andri Thorsson
Ástarbrautin í Útey
Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir hræðslusporin hröð
og hryllingsandköf og bæld óp
og hraðskreiða putta sem æða felmtraðir yfir
stafina á símanum til að ná að skrifa
áður en það er um seinan: Ég elska ykkur
og hraðfleygar hugsanir sem splundrast við
hvern svartan skothvell sem glymur kalt
og hylur andrána um eilífð og breytir aldingarði í ódáðahraun.
Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir unga kossa í heitu kvöldi
og loforð í blíðri golu um ævitryggð og opinn faðm
uns dauðinn oss að skilur
grær yfir lífsviðtengingarháttinn sem varð í miðjum klíðum
hlutskipti þeirra Hönnu og Kaj og Tove og Birgitte, Gizems og Snorre
og allra hinna sem hér eftir myndu
og hefðu og hygðu, ynnu, syngju, grétu, sætu, stæðu, vektu, svæfu,
færu, elskuðu, væru
grær yfir ófullnuð örlög
öll óortu ljóðin, ókveiktu ljósin, ósögðu orðin,
ódreymda drauma og ódrýgðar dáðir,
öll óreistu húsin, öll ófæddu börnin
En Ástarbrautin í Útey er nú að hverfa undir gras
sem grær yfir galopnar vonir og angandi stundir,
laumuleg bros vaknandi ástar og löngunarfullt gítarplokk
og leiddu mig í lundinn við lágnættisbil,
við skulum vaka og vera alltaf til
grær yfir hlátra sem óma kátt í kvikri kyrrð
þar sem fuglarnir hafa að öðru leyti öll völd
TMM_3_2018.indd 33 23.8.2018 14:19