Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Blaðsíða 46
S i g u r ð u r S k ú l a s o n
46 TMM 2018 · 3
hvenær hann á að koma þétt inn og hvenær hann á að leggja áherslu á orð,
stakt eða fleiri saman. Hann segir leikaranum ýmislegt annað og hann segir
honum alltaf hvenær hann á að gera það (svo fremi leikarinn viti hvar hann
á að leita). En hann segir honum aldrei hversvegna. Hvötin eða tilgangurinn,
þetta hversvegna, er hið skapandi verkefni leikarans.“7 Og almennt séð hægja
mörg einsatkvæðisorð í röð á leikaranum.
Ýmis dæmi eru um fleiri áhersluatkvæði en fimm í línu eins og reglan
segir til um. Við sjáum það til dæmis í upphafi ræðu Hinriks fimmta, þar
sem hann hvetur hermenn sína til dáða við hafnarborgina Harflúr við ósa
Signu í Frakklandi. Hann segir:
Once more unto the breach, dear friends, once more,
or close the wall up with our English dead!8
Í fyrri línunni eru sjö áhersluatkvæði (í stað venjulegra fimm) og þar af
meira að segja fimm í röð (þau síðustu). Hér liggur greinilega mikið við. Á
íslenskunni er þetta svona:
Fram gegnum skarðið, vinir, eitt sinn enn,
ella skal múrinn lokast enskum líkum.9
Í þýðingunni er þessu eins farið: sjö þung atkvæði í fyrri línunni (þar af
þrjú þau síðustu í röð) og svo sex í þeirri síðari, þar sem Shakespeare hefur
reyndar fimm. Enn og aftur: það er grunnregla til staðar og Shakespeare nær
dramatískum áhrifum með því að víkja frá henni; hér með því að auka fjölda
áhersluorða í línum. Þessar línur hér að framan eru einmitt mjög sterkar
vegna þessa. Þær draga fram þær erfiðu aðstæður sem Hinrik konungur er í;
mjög er að honum þrengt og hann þarf á öllum sínum styrk að halda, innri
sem ytri, til að hvetja og eggja sína menn í nánast vonlausri stöðu. Þannig er
augljóst að form textans hjálpar leikaranum í leiknum.
Til gamans er hér eitt dæmi í viðbót, þar sem frávikið er eins mikið og
mögulegt er. Hér eru öll atkvæði einnar línu áhersluatkvæði (sem er að sjálf-
sögðu algjör undantekning). Textinn er úr leikritinu Vetrarævintýri:
Paulina: – I say I come
from your good Queen.
Leontes: Good Queen!
Paulina: Good queen, my lord, good queen, I say good queen.10
Þessi síðasta lína er tíu atkvæði og öll atkvæðin bera áherslu. Enn og aftur er
hér um að ræða línu einsatkvæðisorða sem ekki næst á íslensku. Helgi þýðir
þetta svo:
Pálína: Ég kem frá yðar góðu frú.
Leontes: Hvað? Góðu!
Pálína: Já, góðu drottningu, ég segi það,11
TMM_3_2018.indd 46 23.8.2018 14:19