Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Blaðsíða 76
G u n n a r R a n d v e r s s o n
76 TMM 2018 · 3
morð. Er þetta ekki alveg þess virði að reyna það? Þú verður kannski
nýr Arnaldur.
– Ég verð allavega ekki ný Yrsa, sagði ég og hló.
– Varla, sagði Jónas.
– Ég sé að húsin í þessu þorpi eru í öllum regnbogans litum, sagði ég.
– Já, sagði Jónas, hér ríkir mikil litagleði, þó að flest húsin séu nú
reyndar hvít.
– Mikið er þetta fallegt hús, sagði ég og benti á stórt eldrautt hús á
tveimur hæðum.
– Já, sagði Jónas, í þessu húsi bjó nú læknirinn, hann Baldvin, en hann
kálaði sér, tók of stóran skammt af lyfjum.
– Þú segir nokkuð, sagði ég.
– Öll hús eiga sér sögu, sagði Jónas með spekingssvip, sjáðu til dæmis
þetta hús þarna, sagði hann og benti á dökkblátt hús. Þarna bjó rithöf-
undur sem ætlaði að sigra heiminn, hann skrifaði víst langa skáldsögu
hér í þorpinu, en sagan segir að hann hafi brennt handritið. Stuttu síðar
fannst hann dauður hérna í fjörunni.
– Það er aldeilis, sagði ég.
Ég var þarna í góðu yfirlæti í nokkra daga, ráfaði um þorpið á meðan
Jónas var í vinnunni. Ég kíkti á bókasafnið en eyddi annars miklum
tíma á kaffihúsinu, las blöðin og reyndi að skrifa, og þegar það gekk ekki
þá góndi ég bara út í loftið. Naut þess í botn að vera í fríi.
Ég lagði af stað suður á föstudegi eftir kvöldmat. Jónas hafði eldað
dýrindis máltíð. Ég kvaddi vin minn og gerði mig kláran. Ég stóð við
bílinn minn og Jónas var kominn út á stétt, stóð þarna fyrir framan
húsið sitt og veifaði til mín. Ég veifaði á móti. Svo lokaði Jónas dyrunum
og augnabliki síðar hringdi síminn hjá mér. Það var dóttir mín.
– Hvenær kemurðu suður, pabbi? Ég er farin að sakna þín.
– Hvað ertu að segja, ertu farin að sakna mín, sagði ég og hló.
– Já, sagði dóttir mín.
– Ég er að leggja af stað núna, sagði ég, verð svona fimm til sex tíma
á leiðinni, stoppa pottþétt í Staðarskála og fæ mér pylsu og kók.
– Getum við hist á morgun?
– Að sjálfsögðu, ég er í fríi, sagði ég.
– Keyrðu varlega, pabbi.
– Ég geri það, svaraði ég og kvaddi mína ástkæru dóttur.
Ég startaði bílnum og opnaði gluggann mín megin. Það var fínasta
veður, kvöldsól og einmuna blíða. Ég setti í fyrsta gír og ók varlega af stað.
Það var þá sem ég heyrði skothvellinn.
TMM_3_2018.indd 76 23.8.2018 14:19