Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Blaðsíða 44
S i g u r ð u r S k ú l a s o n
44 TMM 2018 · 3
erindi, línulengd, rím og ljóðstafi. Og að greina textann í áhersluatkvæði og
áherslulétt atkvæði, línu fyrir línu, orð fyrir orð. En hvernig förum við að
því? Hvaða orð bera áherslu og hver ekki?
Í íslensku er því almennt þannig farið að nafnorð, sagnorð og lýsingarorð
bera áherslu, og stundum gera atviksorð það líka. En að sjálfsögðu má segja
að heilbrigð skynsemi eða hyggjuvit hvers og eins svari því í langflestum
tilfellum. Hvar finnst okkur koma eðlilegar áherslur í hversdagstali út frá
merkingu þess sem við segjum?
En hvaða reglur gilda sérstaklega um stakhenduna?
Bragarháttur Shakespeares
Stakhendan (blank verse) berst frá Ítalíu til Englands á 16. öld og hefur verið
lýst sem einu algengasta og áhrifaríkasta formi enskrar ljóðlistar síðan þá. Talið
er að u.þ.b. þrír fjórðu hlutar háttbundinna enskra ljóða séu ortir á stakhendu
eða með braglínum sem falla undir jambískan pentametra (fimm öfuga tvíliði).
Stakhendan er rímlaus bragarháttur. Hún skiptist ekki í erindi og ákveðin
ljóðstafasetning er að sjálfsögðu ekki til staðar. Hún er því stundum kölluð
einnar línu bragarháttur, þar sem öll einkenni háttarins birtast í einni línu og
eru svo endurtekin línu eftir línu. Stakhendan býr yfir ákveðinni hrynjandi,
þar sem skiptast á áherslulétt atkvæði og áhersluatkvæði, fimm öfugir tvíliðir
í línu. Öfugur tvíliður eða jambi (líka kallaður rísandi tvíliður) er da-dam.
Fimm öfugir tvíliðir eru því da-dam, da-dam, da-dam, da-dam, da-dam
eða / ˘ – / ˘ – / ˘ – / ˘ – /˘ – / Þessi skipting í veik og sterk atkvæði með jöfnu millibili skapar ákveðna hrynjandi sem fer nálægt hrynjandi í venju-
legu ensku talmáli.
Fimm öfugir tvíliðir í línu er sem sagt grunnreglan í stakhendunni. Til-
brigðin og frávikin frá þessari grunnreglu geta þó verið mörg og margvísleg
og þjóna þeim tilgangi að veita tilbreytingu og hvíld frá þéttri hrynjandi
línunnar, en oftar en ekki eru þau til sérstakrar áherslu hjá Shakespeare.
Og þessi tilbrigði og frávik eru svo mörg og margvísleg að þau eru hluti af
greiningu stakhendunnar! Shakespeare hefur greinilega fullkomið vald á
þessum hætti. Formið leikur í höndum hans og hann víkur því iðulega við til
að ná fram ákveðnum áherslum og áhrifum, dramatískum áhrifum. Það er
því algjört úrslitaatriði fyrir leikarann að standa klár á forminu, á einkennum
bragarháttarins og öllum tilbrigðum við hann og vita hvar þau koma og hvers
vegna. Hafi leikarinn skilning á þessu og vald, njóta þess allir, leikarinn
sjálfur, sýningin og þá áhorfendur um leið.
Grunnregla og frávik
Skoðum nokkur dæmi um stakhenduna og ýmis frávik frá henni. Könnum
fyrst hvernig regluleg stakhendulína lítur út á ensku:
TMM_3_2018.indd 44 23.8.2018 14:19