Tímarit Máls og menningar - 01.09.2018, Side 104
K o l b r ú n H a l l d ó r s d ó t t i r
104 TMM 2018 · 3
fulltrúa landshlutanna og þar með dvínaði aflið í list- og menningartengdu
starfi. Þessa er getið hér í ljósi þess að BÍL hefur lagt sig sérstaklega eftir því
að vekja áhuga stjórnvalda á að fjölga atvinnutækifærum fyrir listamenn
utan höfuðborgarsvæðisins. Til marks um það er málþing sem haldið var í
tengslum við leiklistarhátíðina Act alone á Suðureyri við Súgandafjörð 2017
og fjallaði um efnið.
… ef lífæð aldarinnar er ekki upphaf sjálfs listaverksins, mun það aldrei öðlast alment
gildi; hinsvegar upphefur þjóðin sérhvert listaverk þar sem hún finnur hjarta sitt slá …
Þegar talið berst að málþingum og ráðstefnum er ekki úr vegi að gera í
örfáum orðum grein fyrir hlutverki slíkra þátta í starfi BÍL, en í tengslum
við aðalfundi Bandalagsins eru jafnan haldin málþing og á seinni árum hafa
málþing um höfundarétt verið áberandi. Þau síðustu í þeim flokki hafa verið
haldin undir yfirskriftinni „Lifað af listinni“. Þar hefur verið fjallað um
starfsumhverfi listamanna með tilliti til höfunda- og flytjendaréttar, sem er
flókinn og lagatæknilega snúinn réttur byggður á Bernarsáttmálanum, sem
veitir höfundum listaverka og hvers konar hugverka ákveðna réttarvernd
og er m.a. ætlað að tryggja þeim og flytjendum sanngjarnt endurgjald fyrir
verk sín. Víðast hvar á Vesturlöndum skilar umtalsverður hluti tekna lista-
manna sér gegnum innheimtukerfi höfunda- og flytjendagreiðslna. Það er
því snar þáttur í starfi aðildarfélaga BÍL að fjalla um höfundarétt og tryggja
framþróun hans í samstarfi við stjórnvöld. Á síðasta málþingi BÍL og sam-
starfshóps höfundaréttarsamtaka um þessi efni var fjallað um mikilvægi þess
að stjórnvöld setji sér sérstaka stefnu í málefnum höfundaréttar, sambærilega
þeirri sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra gaf út 2016 um hugverka-
réttindi. Vonir standa til að Höfundaréttarnefnd og Höfundaréttarráð taki
við keflinu í umboði stjórnvalda og þess verði skammt að bíða að íslensk
höfundaréttarstefna líti dagsins ljós. Slík stefna væri grunduð á menningar-
stefnu stjórnvalda og yrði til hagsbóta fyrir listir og aðrar skapandi greinar.
Ekki allra handa sérviskna, sem gánga undir nafninu einstaklíngshyggja og frumleiki,
og miða einkum að því að gera listamanninn að „skrýtnum fiski“, heldur þess guð-
móðs sem fæst af innilegu sambandi við þjóðarsálina, vildi ég óska og biðja íslenskum
listamönnum …
Hér hefur ekki verið minnst á fjölda mála sem BÍL hefur haft til umfjöllunar
undanfarinn áratug eða svo, þar má nefna hugmyndir að evrópskri fyrir-
mynd um hlutdeild listanna í þjóðarlottóinu, heiðurslaun Alþingis til lista-
manna, sögulegar forsendur þeirra og tillögur BÍL um akademíu listanna.
Ekki heldur samstarfið við norræn systurfélög eða Norrænu menningará-
ætlunina sem er aflvaki samstarfs norrænna listamanna. En í stuttri grein
þarf að stikla á stóru. Þeim sem vilja kynna sér til hlítar málefni Bandalagsins
á seinni árum er bent á heimasíðuna www.bil.is en þar eru aðgengilegar allar
ársskýrslur forseta sem lagðar eru fram á aðalfundum og eru til umfjöllunar
TMM_3_2018.indd 104 23.8.2018 14:19