Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Side 133
ALDA BJöRK VALDImARSDóTTIR
132
un, sjálfshyggju (e. solipsism), algyðistrú og manngervingu. Hún væri einnig
tengd sjálfsdýrkun (e. narcissism) Freuds þar sem maður les sjálfan sig inn í
hluti og aðra. Samlíðan var í kenningakerfi Southards skilin frá samúð (e.
sympathy). með samúð líður manneskjan með annarri manneskju en að mati
hans var sú sem fann til samúðar jafnframt að einhverju leyti æðra sett í sam-
skiptunum. Samlíðan var mun flóknara fyrirbæri því að þar verður einstakl-
ingurinn að „þýða sjálfan sig“ yfir í aðra. Að mati Southard er þar fremur um
vitsmunalegt ferli að ræða en andlegt og krefst þess að manneskjan ímyndi
sér á meðvitaðan hátt aðstæðurnar. Slíkt getur verið erfitt, sérstaklega þegar
kemur að grimmilegum atburðum líkt og þeim sem gerast á vígvelli. Sout-
hard segir flest okkar ekki hafa minningar sem dugi til þess að draga fram
slíkt ímyndunarafl.10 Að mati Susan Lanzoni taldi Southard að samlíðan væri
sjálfhverf, narsissísk hugmynd þar sem einstaklingurinn uppgötvar sjálfan
sig í hlutum eða í öðrum.11 Af þessu er ljóst að strax í upphafi síðustu aldar
voru settar fram kenningar sem drógu í efa siðferðisþunga samlíðunarhug-
taksins sem stingur í stúf við ráðandi hugsunarhátt í nútímanum.12
Á næstu síðum tek ég fyrir tvö dæmi um samlíðan úr samtíma okkar,
annað erlent þar sem viðfangsefnið er umræðan um Donald Trump, fyrr-
verandi Bandaríkjaforseta, og hitt innlent og snýr að samlíðan og fötlunar-
fordómum. Tilgangurinn er ekki sá að skrifa gegn samlíðan, heldur fremur
að benda á hætturnar sem felast í gagnrýnislausri upphafningu hugtaksins,
sem getur bæði verið notað til góðs og ills, eins og ég vona að neðangreind
dæmi sýni fram á.
Er Donald Trump sérfræðingur í samlíðan?
Það kemur líklega fáum á óvart hversu oft samlíðan var rædd í fjölmiðlum
á þeim árum sem Donald Trump var forseti Bandaríkjanna. Greinar eftir
greinar voru skrifaðar þar sem lýst var yfir áhyggjum af því hvernig komið
10 Susan Lanzoni, Empathy, bls. 105.
11 Sama heimild, bls. 106.
12 Samtímamaður Southard, freudíski sálgreinandinn Abraham A. Brill (1874–1948),
sá einnig samlíðan sem speglun og útskýrði það á þann veg að samlíðan fremur
en samúð fælist í því að finna fyrir hlut á þann hátt að þú færðir hann inn í þig.
Samlíðan gerir það að verkum að hópi sem horfir á bardaga finnst hann taka þátt í
honum með mönnunum í hringnum. Brill sagði: „Segðu mér hver samlíðunarskráin
(e. index) þín er og ég mun segja þér hver þú ert“. Sjá meðal annars Susan Lanzoni,
Empathy, bls. 108–109. Sjá einnig Abraham A. Brill, „The empathic Index and Per-
sonality“, Medical Record. A Weekly Journal of Medicine and Surgery 97: 4/1920, bls.
131–134, hér bls. 134.