Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Page 188
HÁSKÓLI Í ÞÁGu LýðRæðIS
187
skilar ekki eilífum og óbreytanlegum sannleika sem hefur á einhvern hátt
opinberast háskólafólki. Þaðan af síður skilar hún niðurstöðum sem gerir
pólitískan ágreining óþarfan með því að smætta hann niður í ágreining um
staðreyndir.88 Starfi fjölmiðla er sömuleiðis ekki rétt lýst þannig að þeir miðli
einföldum og óumdeilanlegum staðreyndum. Fjölmiðlar með lýðræðishlut-
verk verða, rétt eins og háskólar, að fylgja aðferðum gagnrýninnar hugsunar
og sannreyna meintar staðreyndir, leiðrétta það sem reynist rangt og greina
frá ólíkum túlkunum og sjónarmiðum, auk þess sem þeir eiga stærstan þátt í
að miðla inn í þjóðfélagsumræðuna staðreyndum og skilningi sem byggist á
rannsóknum í háskólum.
Það er ekki alveg eins einfalt og Arendt vill vera láta að greina óhaggan-
legar staðreyndir og miðla þeim til almennings. Chambers færir rök fyrir
því að gagnlegri mynd fáist ef litið er til þess hvernig kenningar um rök-
ræðulýðræði, og þá einkum kenning Jürgen Habermas, lýsa hlutverki þjóð-
félagsumræðu í lýðræðislegu samfélagi.89 Kenningar um rökræðulýðræði
draga upp kjörmynd lýðræðis sem sýnir hvernig leggja má betri grunn að
réttmætu umboði fyrir opinbera stefnumótun og ákvarðanir stjórnvalda.
Habermas færir rök fyrir því að almannarýmið eigi að geta orðið vettvangur
þjóðfélagsumræðu sem hneigist til að leita uppi sannleikann frekar en að
bjaga hann eða hafa endaskipti á staðreyndum og skoðunum. Staðhæfingar
um staðreyndir séu ávallt háðar fyrirvara um að þær gætu reynst rangar og
trúverðugleiki slíkra staðhæfinga fari eftir því hvernig þeim hefur vegnað í
hreinsunareldi orðræðu þar sem teflt er fram röksemdum, sönnunargögnum
og ýmiss konar réttlætingum ásamt vörnum gegn gagnrýni og mótbárum.
Til að orðræða þjóni þessum tilgangi verði hún að uppfylla formleg skil-
yrði á borð við að enginn sé beittur þvingun, fólk hafi fullt frelsi til að and-
mæla og allir þátttakendur hafi jafna stöðu. Skilyrði af þessu tagi má ljóslega
greina í vísindalegri og fræðilegri umræðu þar sem trúverðugleiki niður-
stöðunnar veltur á heilindum þess ferlis rökræðu og rannsókna sem að baki
henni liggur. Habermas telur að með svipuðum hætti megi líta svo á að
ef rétt er að staðið geti lýðræðislegt fyrirkomulag sannprófað trúverðug-
leika staðhæfinga um staðreyndir. Með lýðræðislegu fyrirkomulagi er hér
átt við að til staðar sé frjáls, opin, gagnrýnin og víðtæk þjóðfélagsumræða,
jöfn staða borgaranna, frjálsir, öflugir og aðgengilegir fjölmiðlar, almenn
88 Sjá Michael J. Sandel, The Tyranny of Merit, bls. 110–112.
89 Simone Chambers, „Truth, Deliberative Democracy, and the Virtues of Accura-
cy“, bls. 152–155; Jürgen Habermas, Truth and Justification, þýð. Barbara Fultner,
Cambridge, MA: MIT Press, 2005.