Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.12.2010, Blaðsíða 157
ISLENSKA OG ENSKA
hreintungustefnu án frekari útskýringa. Sú hefð að nota tökuþýðingar
og innlend orðmyndunarmynstur á sér rætur allt aftur til upphafs ís-
lenskrar ritmenningar og bókmennta. Hún varð til óháð stjórnmálaleg-
um hræringum, þjóðernisbaráttu eða umbótaviðleitni, sem eru dæmi-
gerðir hvatar eiginlegs púrisma eins og hann er skilgreindur í
málfélagsfræði nútímans.
Sérstaða íslensku meðal Norðurlandamála og raunar flestra annarra
mála í heiminum er fólgin í því hvað hún byggir á gömlu viðmiði eða
normi. Viðmiðið sem Islendingar ganga enn út frá í glímunni við form-
vandann, við mat á réttri eða rangri (góðri eða vondri) málnotkun, varð
til á miðöldum. Danska og sænska verða ekki til fýrr en á 16. öld með
siðaskiptum, og á þetta raunar við um flestar þjóðtungur í Evrópu.'
Hvernig á því stóð upphaflega að svo öflugt viðmið sem hin klassíska ís-
lenska eða norræna varð til á sínum tíma er sérstakt umhugsunarefni. Og
skýring á tilurð þess tengist því hvernig sú blómlega menning sem hér
var á síðmiðöldum varð til, og hér er ekki rúm til að ræða það frekar. En
segja má að með þessu hafi teningnum verið kastað, og hin opinbera
málstefna hér á landi hefur verið að „varðveita“ og „efla“ þetta viðmið.7 8
Annað sem einkennir málaðstæður hér og skapar nokkra sérstöðu
meðal annarra Evrópulanda er það að íslenska hefur verið eina málið í
landinu; ekki hafa verið nein minnihlutamál eins og víða er, t.d. í Svíþjóð
og Finnlandi, eða samkeppni milli málstaðla, eins og í Noregi. Þótt ítök
dönsku hafi verið allnokkur um tíma náði hún aldrei fótfestu sem minni-
hlutamál, eins og t.d. sænska í Finnlandi. Afleiðingin af þessu er sú að
málræktarumræða hér á landi hefur síður snúist um stöðu tungumála en
víða annars staðar. Hún hefur fyrst og fremst snúist um form málsins,
verið formstýring. Ekki hefur þurft neina stöðustýringu; íslenska hefor
verið mál Islendinga (að viðbættu íslensku táknmáli) og Islendingar hafa
verið einir um málið. Setja hefur mátt jafnaðarmerki milli þess að nota
íslensku og að vera Islendingur.
Rétt eins og aðstæður á Islandi hafa sett mark sitt á íslenska málstefnu
7 Ana Deumert og Wim Vandenbussche (ritstj.), Germanic Standardizatiom: Past and
Present, Amsterdam: John Benjamins 2003; sjá þar t.d. umfjöllun Kristjáns Arnason-
ar um íslensku, Tore Kristiansen um dönsku, Ulfs Teleman um sænsku og Ernst
Hakan Jahr um norsku; sbr. líka Peter Burke, Language and Communities in Early
Modeni Europe, Cambridge: Cambridge University Press, 2004.
8 Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson og Höskuldur
Þráinsson, Mál ogsamfélag, Reykjavík: Iðunn, 1988.
H5