Andvari - 01.01.2004, Page 141
ANDVARI
STEPHAN G. OG MÓDERNISMINN
139
gagnvart Norður-Ameríkumönnurn. íslendingar vissu hvemig íslensku skyldi
tala og skrifa, og hvemig ætti að nálgast og fara með íslenska rithefð og
sagnaarf. Frammi fyrir þessu viðhorfi stóð Stephan.
Sýn Eliots á hefðina í greininni „Hefðin og hæfileiki einstaklingsins“
(1919) skýrir best afstöðu Stephans til íslenskrar rithefðar. Báðir voru þeirri
reynslu ríkari en Emerson og Whitman að hafa lagst út frá fósturjörð sinni og
leitað að haldreipi gegn rótleysi í skáldskaparhefðinni. „Hefðina" segir Eliot
hafa „víðtækara gildi“ en að vera eftiröpun:
Menn taka hana ekki í arf og vilji þeir ná tökum á henni kostar það mikla vinnu. í fyrsta
lagi krefst hún sögulegs innsæis, er segja má að sé lífsnauðsynlegt hverjum þeim sem
lialda vill áfram að vera skáld eftir 25 ára aldur. Þessi söguskynjun felur ekki aðeins í
sér tilfinningu fyrir fortíðargildi hins liðna heldur og þýðingu þess fyrir nútíðina. Hún
neyðir okkur til að skrifa ekki aðeins með eigin samtíð í huga, heldur í vitund þess að
evrópskar bókmenntir allt frá Hómer, og innan þeirra bókmenntir okkar eigin lands, eru
samtíða og mynda samtímalegt kerfi. Það er þetta innsæi - er felur í sér skynjun hins
tímalausa og hins tímalega, svo og samruna þeirra - sem gerir rithöfund hefðbundinn.
Samtímis gerir það hann afar meðvitaðan um stöðu sína í tímanum, samtímaleika sinn.21
Varla verður samskiptum Stephans við hefðina lýst betur en hér. Eliot og
Stephan áttu það sameiginlegt að skrifa frá Útgarði sinnar hefðar og beittu
sömu aðferð til að ávinna sér virðingu „handhafa“ menningarinnar. Þeir
lögðu báðir hart að sér til að sanna að þeir hefðu engu síðra tak á hefðinni og
engu minna sögulegt yfirlit um hana og nútímann en þeir sem gátu talist
meðal handhafanna. Ekki var þó um það að ræða að Stephan drægi dám af
afstöðu Eliots til hefðarinnar, því hann átti aðeins nokkur ár eftir ólifuð þegar
áhrifa Eliots fór að gæta. En Eliot hafði eitt mikilvægt forskot á Stephan, sem
efldi sjálfstraustið: hann var háskólamenntaður.
Stephan sannaði samt svo ekki varð um villst að menntun væri ekki bund-
in við skólabekk og að gamlir hættir þyrftu ekki að leggja bönd á nýsköpun
og tjáningu, heldur nýttust þeir honum til að festa sér í minni stef, sögur og
sögutúlkanir sem annir dagsins hefðu annars „styggt“ eða „vængbrotið“.
Hann nútímavæddi sagnakveðskap: nýtti hættina til fulls í samspili við mark-
visst val á kvæða- og mælskuhefðum, frásagnartækni annarra bókmennta-
greina og táknrænum vísunum, til að fjölga röddum, og þar með túlkunar-
möguleikum, en raddir í djúpgerð eiga í mismunandi sambandi við rödd eða
raddir mælenda, þeim til stuðnings eða andmæla.
Með krafti nýrra straumboða braut Stephan upp bakland hefðafestunnar og
ruddi nýjar og oft óvæntar leiðir. Uppreisn gegn hefðafestu var þó ekki
endanlegt takmark Stephans, heldur var hún leið til að brjóta bönd sjálfvirkr-
ar - ómeðvitaðrar eða dauðrar - nýlenduhugsunar til að efla sjálfsprottna
vitund í samhengi við íslenska kveðskaparhefð.