Hlín - 01.01.1926, Blaðsíða 134
132
Hlln
er gert hafa Islendingasögur frægar. Henni var í ýmsu
skörulega farið, gerðarkona í sjón og raun. Hún var
kvenna skemtilegust, örgerð og örorð, Ijet margt fjúka á
glaðri stund, sem oft hendir fjörugt fólk. Hún sagði vel
bæði gaman- og alvörusögur. Finst mjer jeg muna fáar
sögur betur en þær, er frú Margrjet sagði. Hún sagði
frá með fjöri og skýrleik og greindi aðdraganda atburða,
svo að menn hlutu að muna, enda var hún prýðilega
minnug. Hún hrygðist fljótt og kættist fljótt, skjót til
þykkju og þykkjuþung, Ijet hart mæta hörðu, sem for-
mæður hennar í fornum sögum, enda brast hana aldrei
einurð, hver sem í hlut átti. Hún var á marga lund
ágætiskona, greiðvikin og hjálpfús, taldi ekki eftir sjer
sporin, ef vinir hennar eða grannar þröfnuðust aðstoðar
á einhvern hátt. Hún gat lagt ótrúlega mikið í sölurnar
fyrir aðra og það allra síðustu æfiár sín, er aldur og
hærur færðust yfir höfuð henni, og hún var orðin ein-
stæðingur eftir dauða bróður síns. Um það er fáum
kunnugra en mjer. Dáðist jeg að fórnfýsi hennar og
kjarki, áræði og úrræðum í andviðrum og jeljum.
Nú er fjörkonan horfin sjónum, hlátur hennar hljóðn-
aður, veitingum hennar lokið, borðið autt. En í brjóstum
velunnara og vina lifir minningin, þökkum vafin og hlýju
vermd, greiðvikni hennar og gleðskapur, umhyggjusemi
og hjálpfýsi, skýrskorinn svipur, táplegur vöxtur, mann-
dómleg og hispurslaus framkoma. En fyr en varir, ökum
við með minningarnar ofan af heiðarbrúninni miklu.
Akureyri.
Sigurður Guðmundsson
skólameistari.