Andvari - 01.01.2009, Qupperneq 73
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
71
fiskihagfræði að reglulegri kennslugrein við hana. Þótti sumum sam-
starfsmönnum hans „aðdáunarvert að sjá hvað Gylfi Þ. Gíslason var
fljótur að laga sig að starfi háskólakennara á nýjan leik.“77 Jafnframt
hófst hann snemma handa við samningu kennslubóka, meðal annars
um rekstrarhagfræði, fiskihagfræði, bókfærslu og þjóðhagfræði, auk
annarra gagna vegna kennslunnar, og linnti því ekki fyrr en undir
lok starfsferils síns.
Það er eftirtektarvert, að í öllum þeim önnum, sem hér hafa verið
tíundaðar og stóðu lungann úr starfsævi Gylfa Þ. Gíslasonar, lét hann
sig ekki muna um að taka drjúgan þátt í margvíslegum öðrum störfum
á opinberum vettvangi, á vegum háskólans, Alþingis, Alþýðuflokksins
og ýmissa annarra aðila. Var það þó einkum áður en ráðherraferill
hans hófst og eftir að honum lauk. Hér eru ekki tök á að rekja það
allt, en sem dæmi má nefna, að hann sat í stjórnarskrárnefnd 1947, var
formaður Hagfræðingafélags íslands 1951-1959, sat í Þjóðleikhúsráði
1954-1987 og var formaður Rannsóknarráðs ríkisins 1965-1971. Hann
átti sæti í stjórn Nýja tónlistarskólans alla tíð. Þorsteinn faðir hans hafði
verið einn af stofnendum Norræna félagsins og Gylfi var formaður þess
1984-1991. í Norðurlandaráði var hann 1971-1978. Þannig mætti lengi
telja, en þó verður að láta hér staðar numið.
Samkennarar Gylfa báru honum vel söguna sem kennara. „Létt lundin,
kurteisin og virðingin fyrir öðrum ...“ þótti þeim Brynjólfi Sigurðssyni
og Þóri Einarssyni einkennandi í fari hans. „(E)n einkum og sér í lagi
var hann meistari hins talaða orðs. Þótt efnið væri til á blaði þá hófst
það í æðra veldi við flutning hans.“ 78 Gylfi Magnússon lýsir honum frá
sjónarhóli stúdenta: „Það tók nemendur ekki langan tíma að átta sig á
því að þar fór maður sem hafði yndi af því að miðla hagfræði til nem-
enda. Virðingin fyrir fræðunum og djúpur skilningur ... skein hvar-
vetna í gegn,“79 sagði nafni hans um hann látinn. Þráinn Eggertsson sló
á enn aðra strengi:
Gylfi kom mér fyrir sjónir fremur sem listamaður en hagfræðingur og stjórn-
málamaður, en listaverkið sem hann glímdi við og reyndi að fullkomna var líf
hans sjálfs. Ég held að Gylfi hafi talið fagurt mannlíf vera mesta listaverkið
og þar hafi þrír samofnir þættir skipt höfuðmáli: að láta gott af sér leiða, að
leita þekkingar og njóta fegurðar í listum. Mér varð fljótlega hugleikið hvernig
Gylfi tengdi fegurð öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og hvernig list mót-
aði umhverfi hans.80