Andvari - 01.01.2009, Síða 138
136
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
standa við það. Þorvaldur hefur lesið sér mjög vel til um danskt leikhús þess-
ara ára og má vera að hann sé á köflum full örlátur á fróðleik sinn um það.
Engu að síður var þetta sá skóli Lárusar, sem mótaði hann mest, og vel þegið
að eiga svo ljósa og lifandi mynd af honum á íslensku.
í fyrsta kafla bókarinnar er nokkuð greint frá fjölskyldu Lárusar og þeim
aðstæðum sem þau Hólmfríður, einkasystir hans, ólust upp við. Hér sakna ég
þess mjög hversu lítið er fjallað um ættir Lárusar. Þorvaldur er að vísu ekki
eini ævisöguritari síðustu ára sem flaskar á þessu. Hann minnist lítillega á
föðurættina, ætt Páls Oskars Lárussonar, sem var sonur Lárusar Pálssonar,
hómópata. Var Lárus hómópati þekktur maður á sinni tíð og hefur sonardóttir
hans, Guðrún P. Helgadóttir, skólastjóri, ritað ævisögu hans. Lárus ólst upp
í nágrenni við þessa föðurfjölskyldu sína í Reykjavík og hún því eðlilegur
þátttakandi í uppvaxtarsögunni. Af kynnum hans við ættmenn norðanlands
segir hins vegar sama og ekki neitt. A einum stað er vitnað í bréf frá frænda
hans, Þorsteini Þorsteinssyni frá Daðastöðum, en ekkert kemur fram um til-
drög þeirra kynna.18 Þetta áhugaleysi um uppruna Lárusar þykir mér meira en
lítið furðulegt, ekki síst í ljósi þess að Jóhanna Þorgrímsdóttir frá Ormarslóni,
móðir hans, var komin af og skyld ýmsu gáfuðu og listhneigðu fólki norð-
an- og austanlands og að þaðan má rekja skyldleika við ýmsa nafnkunna
listamenn.19 Þorvaldur nefnir einungis, að margir hafi talið leiklistarhæfileika
Lárusar komna úr móðurkyninu.20 Því fremur hefði maður talið ástæðu til að
skyggnast þar betur um gættir.
Sambandi Lárusar við móður sína tel ég raunar að hefði þurft að gera
mun betri skil. Þegar Lárus tilkynnti föður sínum um þau áform sín að ger-
ast leikari, brást Páll Óskar hart við því; hafði víst hugsað sér að sonur sinn
yrði læknir líkt og afi hans og alnafni.21 Þessi viðbrögð eru skiljanleg í ljósi
aðstæðna; allir íslenskir leikarar voru enn áhugamenn og í augum almennings
lítið útlit fyrir að það gæti breyst í nánustu framtíð. Aðeins voru liðin fáein
ár frá því að Haraldur Björnsson hafði gefist upp á því að reyna að lifa af
leiklistarstörfum. Foreldrar Lárusar voru langt frá því að vera efnafólk, lifðu
bæði á handafla sínum, eins og þá var sagt, en af því að börnin voru ekki
fleiri gátu þau styrkt þau nokkuð til náms. Jóhanna brást hins vegar öðruvísi
við en maður hennar og eftir að Lárus hafði tekið sína ákvörðun og sýnt að
hann hafði fullan vilja og burði til að fylgja henni eftir, var hún bersýnilega
viss í sinni sök. Sýnir það best hug hennar, einurð og viljastyrk, að hún taldi
ekki eftir sér að ganga á fund æðstu ráðamanna til að afla syninum stuðnings,
þegar mest lá á.22 Móðir Lárusar hefði sannarlega átt skilið stærri hlut í sögu
sem þessari, einnig þegar á líður, en þá hverfur hún bókstaflega úr sögunni.
Af sambandi og samskiptum þeirra mæðgina, þegar á leið, segir ekkert, en
faðir Lárusar lést árið 1949 og lifði Jóhanna hann í fimmtán ár, dó aðeins
fjórum árum á undan syni sínum.