Andvari - 01.01.2009, Síða 140
138
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
hinn ferski blær? Á hvern hátt voru vinnubrögð hans nýstárleg? Hvaða nýja
strauma bar hann með sér? Og hvernig var umhorfs í því leikhúsi sem Lárus
kaus að gera að starfsvettvangi sínum tuttugu og sex ára gamall?
Síðustu spurningunni reynir Þorvaldur Kristinsson lítt að svara í riti sínu.
Hann vitnar í alþýðlegt rit Sveins Einarssonar, Leikhúsið við Tjörnina, um að
fjórði áratugurinn hafi verið „eins konar millibilsástand í sögu félagsins“. Fátt
hafi verið um nýjungar í verkefnavali og gömul sundurþykkja einstaklinga
og fjölskyldna viljað loða við starfið.26 Heldur þykir mér það nú snöggsoðin
afgreiðsla á langri forsögu. Þorvaldur freistar þess ekki einu orði að ræða
hvað hafi helst einkennt verkefnaval L.R. fyrir 1940. Fyrstu tvö leikritin, sem
Lárus setur á svið eftir heimkomuna það ár, eru erlend samtímaverk. Með
því sýndi hann í verki að hann vildi kynna löndum sínum eitthvað af því sem
hann taldi best og brýnast í leikritun samtímans. Þeirri stefnu hélt hann til
streitu eftir mætti. Hún kann að hafa tekist misjafnlega og svo mikið er víst að
hvorki gagnrýnendur né þorri áhorfenda kunnu alltaf að meta það sem Lárus
kom með af þessu tagi.27 Nú voru nýleg erlend leikrit síður en svo nokkurt
nýmæli á verkefnaskrá L.R. En að hvaða leyti voru hin fyrri leikrit ólík þeim
sem Lárus kaus að fást við? Voru þau ef til vill, að öðru jöfnu, meira léttmeti
en það sem hann hafði fram að færa? Áttu þau kannski ekki eins mikið erindi
við íslendinga og hin nýju leikrit Lárusar?
Um leikstjórn Lárusar er fjallað almennt í einum af undirköflum þriðja
hluta, og þar einkum stuðst við vitnisburð gamalla nemenda hans sem síðar
unnu með honum sem leikarar.28 Það er læsileg og ágæt umfjöllun, svo langt
sem hún nær. En hún ber óneitanlega nokkurn svip minningargreinarinnar
þar sem einkum er tjaldað til því sem fegurst verður sagt um hinn látna. Leik-
stjórn Lárusar þarf einnig að reyna að skoða í víðara samhengi, eftir því sem
föng eru til. Annars er örðugt að trúa því að hann hafi verið þar jafn mikill
nýjungamaður og Þorvaldur vill vera láta.
Þorvaldur segir á einum stað, að Lárusi hafi í sýningum sínum tekist „að
skapa jafnræði og samstillingu sem menn höfðu ekki átt að venjast.“29 Það
getur vel verið að þetta sé rétt. En í reynd hefur Þorvaldur ekki mikið við
að styðjast. Leikdómar á fimmta áratugnum voru yfirleitt fremur lélegir;
þetta var áður en menn á borð við Ásgeir Hjartarson og Agnar Bogason, sem
eru fremstu leikdómarar okkar um miðja síðustu öld, koma til sögunnar, en
þeir byrja báðir að skrifa skömmu fyrir 1950. Orðalag Þorvalds er áberandi
almennt og óljóst: „Jafnræði og samstilling“ - hvað merkja þessi orð nánar
til tekið? Eg skil reyndar ekki orðið „jafnræði“ í þessu samhengi - á hann
við að leikendur hafi verið jafnráðir um túlkun sína? Og í framhaldi af því:
Valdi Lárus e.t.v. betur í hlutverk en aðrir leikstjórar? Lagði hann meiri rækt
en þeir við samleikinn? Var hann betri persónuleikstjóri en þeir, lagnari við
að virkja dulda hæfileika leikenda? Var hann hugkvæmari en hinir leikstjór-