Andvari - 01.01.2009, Page 144
142
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
þeim hætti á allra fyrstu árum leikhússins, en lét síðan að heita mátti algerlega
af því.39 Bæði Indriði og Haraldur héldu því hins vegar ótrauðir áfram og
létu sér sýnilega fátt um finnast þó að að því væri fundið í dómum.40 Indriði
lék oft í þeim sýningum sem hann leikstýrði og a.m.k. þrívegis skipaði hann
sjálfan sig í burðarhlutverk: Goole lögreglufulltrúa í Ovænt heimsókn árið
1950, Willy Loman í Sölumaður deyr 1951 og Frank Elgin í Vetrarferð 1956.
Svipaða sögu er að segja af Haraldi Björnssyni, sem fór oft með hlutverk í
eigin sýningum í Þjóðleikhúsinu.
Löngum hefur verið haft á orði að styrkur Indriða Waage hafi legið í
persónuleikstjórninni, skyggni hans á hæfileika leikenda og getu til að laða
fram hið besta hjá þeim.41 Indriði hafði ekki leitað sér menntunar erlendis, en
árið 1923 dvaldist hann um tíma í Berlín og varð þá fyrir miklum áhrifum af
þýskri leiklist, áhrifum sem fylgdu honum ævilangt. Ekki er þó vitað til þess
að hann hafi á þeim tíma fylgst með æfingum eða reynt að kynna sér starf
leikhúsanna að tjaldabaki. Það sem Indriði kunni hafði hann lært í leikhúsinu
við Tjörnina, þar sem hann var nánast alinn upp, og svo af því sem hann hafði
séð og lesið sér til um erlenda leiklist. Þorvaldur orðar það svo að hann hafi
fremur treyst á innsæið en stranga greiningu textans, hann hafi þótt „nálgast
verkefni sín eftir leiðum tilfinninganna umfram það sem Lárus kaus."42 Hér
átta ég mig ekki fyllilega á því hvað Þorvaldur er að fara, nema hann sé að
ýja að því að Indriði hafi ekki vandað sig við að greina þau leikrit sem hann
setti upp eða haft skýra mynd af þeim heildaráhrifum sem hann vildi ná fram
með sýningunni. Varla er Þorvaldur að segja, að Lárus hafi ekki beitt innsæi
í leikstjórnarvinnunni? Er hann ef til vill að reyna að upphefja verk Lárusar
óbeint með því að niðra Indriða undir rós?
Sannleikurinn er sá, að Indriða var oft og tíðum hampað af leikdómurum
sem töldu hann afbragð annarra leikstjóra. Agnar Bogason skrifar t.d. í
einum af fyrstu dómum sínum og er þá að fjalla um sýningu Fjalakattarins
á norska leiknum A meðan við bíðum sem Indriði lék bæði í og leikstýrði:
„Leikstjórinn Indriði hefur þráfaldlega sýnt yfirburði sína í leikstjórn, og er
óhætt að fullyrða, að hann hafi náð þeirri leikni í þeim efnum hér, að vafasamt
er, hvort aðrir leikstjórar taki honum fram í náinni framtíð?43 Þetta var alls
ekki í eina skiptið sem skrifað var um leikstjórn Indriða í líkum anda.44 Það
má vera að Þorvaldi þyki ekki ástæða til að gera mikið með slíkar umsagnir,
þær séu ekki nægilega glöggar eða rökstuddar. Samt sem áður er ekki rétt að
ganga þegjandi fram hjá þeim.