Hugur - 01.01.2007, Blaðsíða 46
44
Stefán Sncevarr
um hvort þær eru yfirleitt skynjanakyns (ég ræði þau mál nánar síðar í þessari
grein). Geðshræringar eru samsettar úr kenndum og þekkingarlegum þáttum,
sumir myndu segja „þrá og trú“ („þrá“ merkir hér hið sama og enska orðið „desire11,
„trú“ merkir „belief“) (Kristján Kristjánsson 2005: 19). Lítum á hvernig þessi
hugmynd um þrá og trú er rökstudd: Varla telst Gummi hræddur við Jón nema
hann þrái að komast burt er hann mætir honum (hann verður náttúrulega að trúa
því að Nonni ætli honum illt).Tæpast getur Stína elskað Stjána nema hún þrái
hann og líti á hann sem elskuverðan mann. Eins og skáldið kveður:
Svo sá hún Stjána, það vakti þrána,
hann kom á Grána út yfir ána...
Stína þráir Stjána og trúir því jafnframt að hann hafi ýmsa jákvæða eiginleika
sem geri hann meira en einnar nætur virði. Hún hefði kannski tekið undir með
söngvaranum sem söng: „I love you because you understand dear ...“. Astin bygg-
ir á rökum, hversu undarlegt sem það kann að hljóma. „Justify my love“ kyrjar
Madonna og gellan sú veit hvað hún syngur.
Astin er ekki ein á báti, það gildir um geðshræringar almennt að þær hafa vits-
þátt, samanber orðið „vitskenning". Samkvæmt henni er staðhæfingarþáttur í
geðshræringum. Þátturinn sá í ást Stínu er staðhæfingin „Stjáni er mjög elsku-
verður“. Stína trúir þessari staðhæfingu, hún er þeirrar skoðunar að Stjáni eigi ást
skilið.
En hvers vegna hafa geðshræringar vitsþátt? Ekki síst vegna þess að þær hafa
ævinlega viðfong (objekt) og um viðföng má setja fram staðhæfingar (framkoma
Jóns er viðfang reiði minnar og ég sagt ýmislegt um framkomuna). Lítum á þau:
Stjáni er viðfang ástar Stínu sem er kannski reið út í heiminn (heimurinn er
viðfang reiði hennar). Áðurnefndur Kristján er stoltur af því að vera elskaður af
Stínu. Hann hefur góða og gilda ástæðu fyrir því að vera stoltur því Stína er
stórglæsileg öndvegiskona. Stolt hans byggir á góðum rökum.
Skoðum annað dæmi: Jóna er reið Jóni því hún er þess fullviss að hann hafi
stofið bílnum hennar. Það að hann hefúr stolið bílnum er viðfang reiðinnar. Rökin
fyrir henni eru í fyrsta lagi að maður hafi rétt til að reiðast þeim sem stelur mikil-
vægum eigum manns, í öðru lagi að það sé satt að Jón hafi stolið hinum mikil-
væga bíl. Uppgötvi Jóna að þetta var ósatt ætti henni að renna reiðin. Geðs-
hræringin hverfur vegna þess að hún skiptir um skoðun. Þannig geta skoðanir
skipt sköpum þegar geðshræringar eru annars vegar. Geðshræringar eru því ekki
bara kenndir, gagnstætt til dæmis sársauka sem ekki hverfúr þótt við breytum um
viðhorf. Þessu til áréttingar skulum við hugsa okkur þann möguleika að Jóna
virðist halda áfram að vera reið út í Jón þótt hún viðurkenni að hann hafi ekki
stolið skrjóðnum. Þá er eðlilegt að spyrja hana hverju þetta sæti, hvaða ástæðu
hún hafi fyrir reiðinni. Svari hún „ég hef enga sérstaka ástæðu til þess arna, ég er
bara reið út í hann“ má telja að annað hvort ljúgi hún, blekki sjálfa sig eða skilji
ekki hvað reiði er (Solomon 1976:184).