Hugur - 01.06.2010, Síða 170
HUGUR | 22. ÁR, 2010 | S. 168-182
Stefán Snævarr
Freud og dulvitundin (og listin)1
Höfum við dulvitund að hætti Sigmundar Freud? Um það deila hinir lærðu, fræði-
menn á borð við Alasdair Maclntyre, Daniel Dennett, John Searle og Mark Solms.
Kenningar þeirra leika talsvert hlutverk í þessari grein, ég hyggst ræða kost og löst á
þeim. En fyrst mun ég lcynna kenningar Freuds stuttlega og í léttum dúr.
Framlag mín sjálfs er hugmynd mín um möguleg tengsl dulvitundar og þögullar
þekkingar. Ég bregð á leik, leik mér að þeirri hugdettu minni að myndhverfingar
og skáldskapur geti kastað ljósi á bældar kenndir. Reyndar er ég þeirrar hyggju
að heimspekingar eigi ekki endilega að leita sann-leikans heldur benda á nýja
mögu-leika, leika sér að hugmyndum en með vitlegum hætti. Heimspekin er hinn
alvarlegi leikur, skynsemin semur leikreglurnar.
En hvers vegna eiga heimspekingar fremur að leika leikinn alvarlega en að leita
sannleikans, þess hins algöfga?2 Svar mitt er að leit heimspekinga að stórasann-
leikanum hefiir ekki borið mikinn árangur hingað til. En þeir hafa verið drjúgir
við að benda á ýmsa nýja, spennandi möguleika, t.d. þann möguleika að maðurinn
hafi jafnt meðvitund sem dulvitund. Sú var tíðin að menn höfðu engin hugtök
um með- og dulvitund, heimspekingar auðguðu hugsun okkar með því að skapa
þessi hugtök.
Freud um dulvitund ogfleira
Kenningin um dulvitundina á sér eldfornar rætur, Platon talar eins og sálin hafi
víddir sem hún geti ekki vitað af nema hún njóti leiðsagnar manna á borð við
Sókrates. En hann ræðir hvergi um meðvitund, hvað þá dulvitund. Það gerði aftur á
móti löngu gleymdur heimspekingur á nítjándu öld, Eduard von Hartmann. Hann
mun hafa átt mikinn þátt í að gera hugmyndir um dulvitund (þý. Unbewufitseiri)
vinsælar. En frægust hefur dulvitundin orðið fyrir tilverknað Sigmundar Freuds.3
1 Sigurði J. Grétarssyni er þakkaður yfirlestur, góð ráð og ábendingar.
2 Ekki má skilja orð mín þannig að ég telji að heimspekingar eigi að hunsa sannleikann, öðru nær.
Minn boðskapur er sá að þeir eigi ekki að stressa sig of mikið á sannleiksleit og stunda líka leit að
frjóum hugmyndum, án tillits til þess hvort þær séu efniviður í sannyrðingar.
3 Freud setur fram meginhugmyndir sínar á alþýðlegan máta í Freud (1970). Greinargott en gamal-