Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2005, Page 75
KVENLEGAR ÁSÝNDIR RÓMÖNSKU AMERÍKU
verður einhvers konar tákngervingnr þess óbeislanlega sem sífellt verður
að takast á við. Konur eins og hún verða að víkja svo siðmenning að evr-
ópskri fyrirmynd geti skotið rótum í landinu og svo tryggt sé að blíð-
lyndu þægu konurnar sem karlveldið ræður yfir fái notið sín. Þótt von-
leysið nái yfirhöndinni í skáldsögunni þegar foringinn fellur í sögulok þá
tryggir karlveldið stöðu sína og mótar ráðandi gildismat, rétt eins og á
tímum landvinninganna. Skáldsagan Lýðurinn verður þannig eins konar
sýnisbók um átökin milli siðmenningar og ómenningar eða siðfágunar
og villimennsku. Civilización eða barbarie verða í umfjöllun höfundar
andstæður í áflogum um yfirráð og mikilvægt leiðarstef umræðunnar,
rétt eins og þau höfðu verið í félags- og stjórnmálaumræðu Rómönsku
Ameríku allt frá tímum sjálfstæðis. Argentínski rithöfundurinn og stjórn-
málaleiðtoginn Domingo F. Sarmiento (1811-1888) veltir því m.a. upp í
bók sinni Facundo (1845), hvort raunhæft sé að ætla að annað geti staðið
án hins á heimssvæði sem byggt var upp á grunni ofbeldis og leggur í bók
sinni út af nauðsynlegri sambúð beggja afla.15
Sögumar sem José Eustasio Rivera ffá Kólumbíu segir í skáldsögunni
Hringiðan (La vorágine, 1924) og Rómulo Gallegos frá Venezúela segir í
Frú Barböru ýDona Bárbara, 1929) flytja okkur sama boðskap.16 Sjálfstæðu,
ákveðnu og oft grimmlyndu kvenpersónurnar sem klæðast að karlasið,
hafa mannaforráð og þurfa ekki karlmenn sér til fulltingis verða tákn-
myndir þeirra ógna sem þarf að takast á við. Eins og frúin í Fní Barböm
búa þær yfir dulúðugum frumkrafti sem þær nýta til að lokka karldýrin til
sín án nokkurs viðnáms og deyða að lokum. Þær komast áfram af eigin
rammleik en eru fyrir vikið taldar flögð í tygjum við djöfulinn. Þær eru á
valdi óútskýrðra afla og hafa að því er virðist vald yfir náttúruöflunum.
Þær ráða atburðarásinni enda þótt karlkyns höfundar verkanna úr efri
stigum samfélagsins komi málum gjarnan þannig fyrir að þær séu að lok-
um látnar víkja fyrir góðu stúlkunum sem hafa tileinkað sér gildismat
borgarastéttarinnar. I lok skáldsögunnar um Frú Barböru verður ljóst að
15 Bandaríska fræðikonan Francine Masiello setur þessa umræðn í kvenfrelsislegt sam-
hengi í bók sinni: Betœeen Civilización and Barbarism: Women, Nation and Literary
Culture in Modem Argentina (Lincoln: University of Nebraska Press, 1992), þegar
hún spyr hvort konur sé að frnna innan hugtaksins þjóð og með hvaða hætti konur
og reynsluheimur kvenna hafi haft áhrif á merkingu hugtakanna samfélag, þjóðfélag
og þjóð.
16 Hvorug þessara skáldsagna hefur verið þýdd á íslensku. Dona Barbara kom út í
enskri þýðingu árið 1990 en frumskógarsagan La vorágine er óútgefin á ensku.
73