Tímarit Máls og menningar - 01.01.1988, Blaðsíða 23
Árni Óskarsson og Örn D. Jónsson
Af hverju ættum við að
framleiða lélegt rauðvín?
William Morris, ísland og útópían
Á undanförnum árum hafa verk og hugmyndir William Morris (1834-1896)
notið síaukinna vinsælda. Morris var margslunginn persónuleiki, ótrúlega
fjölhæfur og glöggskyggn á samtíma sinn. Hann var allt í senn, skáld og
rithöfundur, handverksmaður, einn af upphafsmönnum nútímahönnunar,
áhrifamaður í þróun prentverks, pólitískur hugsuður og frumkvöðull í bar-
áttuhreyfingu sósíalista í Englandi. En það eru ekki síst margþætt tengsl
hans við Island og íslenska menningu sem gera hugmyndir hans forvitni-
legar fyrir okkur.
Morris fæddist 24. mars 1834 í Walthamstow í útjaðri Lundúnaborgar,
sem var á þeim tíma hálfgert sveitahérað, og var fjölskylda hans allvel
efnum búin. Fjölbreytileg áhugasvið Morris komu fram snemma, en hann
lagði í fyrstu stund á guðfræði, sögu og bókmenntir jöfnum höndum. Árið
1854 ákvað hann svo að læra arkítektúr. Um svipað leyti kynntist hann
hreyfingu pre-rafaelítanna sem var hópur listamanna sem sóttu hugmyndir
sínar til endurreisnarinnar, sérstaklega þeirra listamanna sem voru næst á
undan Rafael. Kynni Morris af þessum hópi leiddu til þess að hann lét
byggingarlistina lönd og leið en snéri sér að málaralist í nokkur ár, frá 1856
til 1859.
Pre-rafaelítarnir urðu mjög áhrifamiklir í listalífi Viktoríutímans og ævi
og starf Morris einkenndist mjög af samskiptum hans við meðlimi hreyf-
ingarinnar. Með aldrinum fjarlægðist hann hugmyndir þeirra og lagði mik-
ið á sig til að finna raunhæfari svör við spurningum samtímans en þeir
buðu upp á. í leit sinni ferðaðist hann m.a. tvisvar til íslands, gerðist
marxisti og tileinkaði sér fjölmargar handverksgreinar, þar á meðal prent-
tækni, vefnað, veggfóðursgerð, útskurð og húsgagnasmíðar.
Sem rithöfundur var Morris undir áhrifum frá ensku rómantíkinni og
þaðan er líka kominn áhugi hans á miðöldum og ýmsum goðsögulegum
yrkisefnum. Árið 1867 gaf Morris út kvæðið The Life and Death of Jason
13