Skírnir - 01.01.1960, Page 21
SVEINN EINARSSON:
Á ALDARAFMÆLI FRÖDINGS.
Ég elska það ljóð, sem alltaf trúir mér fyrir meira, segir
danska skáldið Poul La Cour. Sumum ljóðum auðnast þetta
að trúa fyrir meira og meira einstaklingum, nýjum kynslóð-
um. Örlög skáldsins, sem orti, eru tvenn og þrenn. Kannski
er það geymt innan veggja sjúkrahúss, lamað á vilja, sköp-
unarkrafti, hugsun, tilfinningu, eða bein þess gulna í mold-
inni. En sú hugsun og sú tilfinning, sem eitt sinn vaknaði
með því, lifir áfram í ljóðinu og fæðir af sér nýtt líf með öðr-
um mönnum. Þessi verk eru kölluð sígild og eru fjársjóður
hverrar tungu. Á þessu ári er öld liðin, siðan sænska skáldið
Gustaf Fröding fæddist, og tæplega hálf öld, síðan hann lézt,
og í dag kalla norrænir menn verk hans sígild. 1 þau tæp
sjötíu ár, sem liðin eru, síðan ljóð hans birtust fyrst, hafa þau
haldið áfram að trúa mönnum fyrir meira og meira.
Fröding var fæddur á óðalinu Alster í Vermalandi og átti
til gáfaðs fólks og efnaðs að telja. Móðurafi hans var þjóð-
kunnur maður, biskup, vísindamaður og stjórnmálamaður, og
dóttir biskups þótti gáfuð kona. Og skáldmælt var hún, en
ekki heil á geðsmunum, þegar hún gekk með soninn. Faðir-
inn, óðalsbóndinn, var ekki mikið gefinn fyrir veraldlegt vafst-
ur, enda hélzt honum illa á óðali sínu og erfðagóssi. Þessa arfs
foreldranna gætir í lífi Frödings og skapshöfn. í honum tog-
ast á heimsáhugi og heimsflótti, og geðveilan grúfir eins og
skuggi yfir lífi hans, unz yfir lýkur. Fröding varð stúdent og
fór til Uppsala til háskólanáms. Stúdentsár hans eru sögð hafa
verið nokkuð taumlaus eins og svo margra annarra; þar eyddi
hann arfi, sem honum hafði tæmzt frá ættingjum, en próf
tók hann aldrei. Hann mun reyndar á þessum árum hafa haft
fyrstu kynni af þeim sjúkdómi, sem síðar réð svo miklu um