Skírnir - 01.01.1960, Síða 25
Skírnir
Á aldarafmæli Frödings
23
Eitt er það, að oft felst alvara bak við glettnina eins og í kvæð-
inu Den 'svenske Celadons klagovisa över de svarte Morhianer
i Afrika eða tJr ferðasögu frá Afríku, eins og Magnús Ásgeirs-
son kallar það. Sögumaður sýnir gígju sína þeim kolsvörtu
Afríkönum, sem kallast Móríanar. Síðan segir í túlkun Magn-
úsar:
Þeir sögðu: „Afleitt, Hvítur,
er ykkar skóflublað."
Svo fundu þeir mitt skóhorn
og festu strengi á það
og mæltu: „Þú skalt messa
á meistarafiðlu þessa.“
Svo urðuðu þeir gígjuna
í afrikönskum mel.
Nú spila ég á skóhomið
og spila bara vel.
Það verður loksins vani
að vera Móríani.
Þetta er gamansamt og sakleysislegt á yfirborðinu, og þó
glittir hér í skáldið, sem er útlendingur í þjóðfélaginu, og það
er tilfinning, sem Fröding á oft eftir að lýsa skýrar og stund-
um beiskar. Málið á hinni sænsku frumgerð kvæðisins er svo-
lítið rókokkóskotið. Slík vísvitandi stílstæling eða pastiche, eins
og þetta fyrirbrigði er kallað á erlendum málum, var mjög í
tízku meðal sænskra skálda um þessar mundir og þótti mikil
íþrótt, og í þessari íþrótt var Fröding flestum leiknari. Kom
þar m. a. til sérstæður hæfileiki hans til að setja sig inn í
blæ liðins tíma, stíl- og hermigáfa, rímleikni og næmt skyn
á hljóm orðanna og hljóðfall setninganna. Fröding orti mörg
slík kvæði, en fæst eða ekkert þeirra er til þýtt á íslenzku, enda
torvelt verk að snúa þeim, en mér dettur í hug að benda á
Maríuvísur Jóns Helgasonar sem dæmi um þessa ljóðategund
í íslenzkum bókmenntum. Eins og þar eru ekki aðeins orð-
myndir og orðskipun, heldur og stafsetning liðins tíma endur-
vakin. En Fröding sóttist ekki aðeins eftir máli liðins tíma. Tví-
vegis lét hann fara frá sér lítil ljóðakver, þar sem allt er ort
á mállýzku, vermlenzku, og framburðurinn þar látinn miklu
ráða um stafsetningu og hljóðfall.