Skírnir - 01.01.1960, Page 27
Skirnir Á aldarafmæli Frödings 25
þau kvæði í Gitarr och dragharmonika, sem lýsa samúð með
lítilmagnanum eða utangarðsmanninum í þjóðfélaginu, þeim
sem heimurinn sýnir skilningsleysi eða skeytingarleysi. Eitt
slíkra kvæða er síðasta ljóð bókarinnar Fátœkur munkur frá
Skörum. Fröding nálgast hér yrkisefni sitt ekki ósvipað og
Davíð Stefánsson síðar í sögukvæðum sínum; hjarta hans slær
með hinum fátæka, ólærða strokuklerki, og það er hið mann-
lega innihald, sem tengir saman tímana tvenna. f einu erind-
inu segir svo (þýðing Magnúsar Ásgeirssonar):
Það er ekki satt, sem ég ætlaði fyrr,
að úthýst sé neinum við himins dyr,
því athvarf hlýtur þar hver og einn,
þar hafur er enginn né sauður neinn.
Sá góði er ekki svo hreinn sem hann
í hroka sínum ætla kann.
Sá illi er því góða ávallt nær,
en ætlar hann sjálfur, er kvölin slær.
Því lítt skaltu lofa og róma
né lasta og fella dóma.
Mildur og samúðarríkur er dómur Frödings um mennina. Og
þegar hann varar mann við að treysta um of á algildi hugtak-
anna góðs og ills í mannssálinni, bryddir hann upp á spurn-
ingum, sem kveða æ meir við í ljóðum hans og verða að lok-
um nánast aðalinntak þeirra. f öðru erindi kvæðisins segir:
En dynur í fossi og skrjáf i skóg
og skin, sem ársól á f jöllin sló,
og haustregn, sem harmþungt flæddi,
í hjarta mér kærleikann glæddi.
Við daggir og læki og lóukvak
og léttstigra hinda fótatak,
við blómin og íkornans gleði á grein
mér gróandans von í hjartað skein.
1 sjélfum mér sæmd mín glæddist.
Um sannindi ný ég fræddist.
Hér birtist okkur annað höfuðeinkenni hjá Fröding: Hinn
frelsandi og græðandi máttur náttúrunnar. Náttúran er alls
staðar nálæg í Ijóðum hans. En hún er annað og meira en
snoturt umhverfi: Hún er fóstra mannanna, sem veitir þeim
heill og hreysti og opinberar þeim fegurð.