Skírnir - 01.01.1960, Síða 123
Skírnir
Séra Ólafur á Söndum
121
í rím.1) Var þá oft aðalatriði að þræða efni og anda, en minna
hugsað um listræna framsetningu.
Megnið af þeim sálmum, sem ortir voru, eru bænir til
drottins, að hann aumkist nú yfir þennan maðk, manninn í
niðurlægingu sinni og synd.
Því auðmjúkari og lítilmótlegri sem skáldin eru, því meiri
samhljóðan við trúarstefnuna.
Guð er strangur og reiðir vöndinn, maðurinn á einskis úr-
kosti, kirkjan hefir beygt hann til jarðar. Jafnvel sjálfur guð
er fjarlægur, nema þegar hann er að hirta menn fyrir synd-
ir sinar.
En erfitt er þó að bregða upp einni guðsmynd fyrir öll
sálmaskáld þessa tímabils. Öll voru þau raunar háð hinum
lúterska rétttrúnaði, en því mildari sem þau hafa verið sjálf,
því mildari er guðshugmynd þeirra.
En þó að guð sé strangur og refsi mönnum, hafði hann þó
eitt gjört: Hann gaf son sinn til lausnargjalds fyrir mann-
kynið.
En samt er það svo, að menn þakka Kristi, hann verður
sá, er leysir. Hann er mönum líka nálægur, til hans er hægt
að flýja, við hann er hægt að tala. Hann kemur að nokkru
leyti í stað kaþólsku dýrlinganna.
En þrátt fyrir það, að skáldin elska Krist, þá ganga þau
oft fram hjá þvi, sem við nútímamenn hljótum fyrst að nema
staðar við: Kenning hans, boðskapurinn eins og sagt er frá
honum í guðspjöllunum.
Sálmaskáldin dást að því, að Kristur skyldi vera einget-
inn, að hann með friðþægingardauða sínum skyldi kaupa
mennina í sátt við guð.
Kristur hefir sjálfur þjáðst, og sú mynd hans verður mönn-
um hugstæðari, þegar þeir þjást sjálfir.
Guðshugmynd sérhvers tímabils er spegill af þjóðfélags-
ástandi, einkum eins og hún birtist í skáldskap.
!) Sbr. ritið Kristileg undirvisun um ódauðleika sálarinnar og kvæðið:
Eitt kvæði um syndir og aðra ósiðu í Vísnabókinni 1612. Sjá einnig Menn
og menntir IV, 406.