Skírnir - 01.01.1969, Síða 16
14
SIGURÐUR LÍNDAL
SKÍRNIR
anda Hörða-Kára.18 Föður hans og föðurættar er hins vegar hvergi
getið. Um ævi hans er og nánast ekkert vitað, nema sendiförina til
Noregs, og er þó ekki margt frá henni greint. Hann er sagður hafa
átt son, Gunnar að nafni, sem kvænzt hafi Þóru, dóttur Helga magra,
en ekki verður séð, að ætt sé frá honum komin, og fara fáar sögur
af niðjum hans.19 Ekki er Úlfljótur í ætt við Björn bunu, svo að
vitað sé. Einu tengsl hans við þá, er stóðu að þinghaldi á Kj alarnesi,
eru þau, að hann keypti lönd að Þórði skeggja, sem sagður var upp-
haflega hafa numið land austur í Lóni. Fluttist síðan Úlfljótur aust-
ur, en Þórður reisti bæ að Skeggjastöðum í Mosfellssveit.20 Ekki er
vitað, hvar Úlfljótur bjó, áður en þetta gerðist.
5.
Þrennt virðist liggja nokkurn veginn ljóst fyrir: Valdhafar á Is-
landi þurftu að réttlæta völd sín. í þeirri viðleitni má segj a, að bæði
Ingólfur og Úlfljótur gegni lykilhlutverki. Loks kemur það, að lítið
sem ekkert er um þá vitað. Þeir birtast sem snöggvast og hverfa síð-
an, jafnskjótt sem þeir hafa lokið hlutverki sínu.
Frásögn íslendingabókar af Kjalarnesþingi bendir til þess, að
niðjar Ingólfs hafi a. m. k. verið oddvitar valdahópsins kring-
um Kjalarnesþing, og má nú spyrja: Var svo, af því að Ingólfur var
í reynd fyrsti landnámsmaðurinn, eða var Ingólfur talinn fyrsti
landnámsmaðurinn til þess að styrkja aðstöðu þessa valdahóps? Og
eins má spyrja um Úlfljót: Fór hann raunverulega sendiförina til
Noregs með þeim hætti, sem íslendingabók lýsir, eða er hann talinn
hafa farið hana í þeim tilgangi að treysta aðstöðu þess valdahóps,
sem mestu réði í þjóðfélaginu?
Um Ingólf er ekki ætlunin að fjölyrða hér. Eins og áður er vikið
að, virðast nánustu niðjar Ingólfs hafa haft tiltekna sérstöðu við
upphaf allsherj arríkis. Þorsteinn Ingólfsson er að sögn íslendinga-
bókar forgöngumaður stofnunar Kjalarnesþings. Reykj avíkurgoði
hefur það hlutverk að helga Alþingi og nefnist allsherjargoði. Ekki
er vitað, hvort allsherjargoðorði hafi í upphafi fylgt meiri völd en
öðrum goðorðum, en svo virðist sem það hafi verið ættgengt virð-
ingarheiti.
Ástæðan fyrir þessari sérstöðu Reykjavíkurgoðanna hefur verið
talin sú, að þeir hafi verið afkomendur hins fyrsta landnámsmanns.