Skírnir - 01.01.1969, Side 45
SKÍRNIR
GUÐRÚNARKVIÐA II
39
Þessi tvö dæmi nægja því til staðfestingar, að myndskreytt erlend
tjöld gátu orðið íslenzkum skáldum yrkisefni. - Hafi höfundur Guð-
rúnarkviðu II verið íslenzkt skáld á 11. eða 12. öld eins og einstakir
fræðimenn hafa ætlað, hvort mundu þá frásagnir hans af hannyrð-
um hafa stuðzt við íslenzkar fyrirmyndir eða erlendar? Ugglaust
verða seint færð fram óyggjandi rök í því efni. Víst er hitt, að engar
öruggar heimildir hafa geymzt um refla- eða borðagerð íslenzkra
kvenna á víkingaöld né öndverðum miðöldum. Stundum getur að
vísu um húsbúnað í íslendinga sögum, Biskupa sögum hinum elztu
svo og máldögum. í Víga-Glúms sögu segir frá skálabúnaði norskum
í eigu Ingjalds, sonar Helga magra, einnig getur sú saga um tjöld,
er Víga-Glúmur hafi þegið að gjöf og bendir frásögnin líka til
Noregs. Höfundur Gísla sögu Súrssonar lætur Véstein, mág Gísla,
hafa heim með sér frá Bretlandi refil feiknmikinn eða 60 álna lang-
an (hartnær jafnlangan Bayeuxreflinum). Rekkjurefill Þórgunnu
hinnar suðureysku mætti einnig hafa verið enskur að uppruna, því
að rekkj ulín hennar er nefnt enskar blæj ur. Allar eru frásagnir þess-
ar úr ritum skráðum á 13. öld, að því er talið er. Þær sýna eigi að
síður, að höfundarnir hafa haft sagnir af húshúnaði, norskum og
enskum, í eigu íslenzkra manna á söguöld, en um íslenzkan geta
þær ekki.
Hvort sem höfundur Guðrúnarkviðu II hefur verið norskur að
þjóðerni ellegar íslendingur og hver öldin sem hefur fóstrað hann
— hin tíunda, ellefta eða tólfta, þá má eitt ljóst verða af kvæðinu:
Það nafnlausa skáld var enginn heimalningur hvorki í andlegum
skilningi né heldur veraldlegum. Hann vissi eins og sjá má af upp-
hafserindinu, hvert hús sómdi konungsdóttur, og jafnkunnugt var
honum að hannyrðir voru „gaman“ og fremdariðja tignarkvenna
fornaldar. Ljóðlínurnar um hin valnesku víf, búnað Langbarðsliða
og aðrar menningarsögulegar svipmyndir í kvæðinu vitna um fróð-
an mann og víðförulan, er í endurminningunni sér fjarlæg lönd í
ljóma. Hann má því með sanni teljast vel að því kominn að hafa
einn náð að skila ókominni tíð heimild um þá fornfrægu og virðu-
legu iðn að hlaða spjöldum, vitneskju um einhverja „einföldustu,
en snjöllustu, margbreytilegustu og fegurstu vefnaðaraðferð, sem til
vor hefur borizt“, eins og kunn sænsk fræðikona hefur komizt að
orði um spjaldvefnaðinn.