Skírnir - 01.01.1969, Page 51
SKÍRNIR
UM EÐLI ÍSLENDINGASAGNA
45
lendinga (og Norðmanna) frá miðöldum, í bundnu máli og
óbundnu.
I fyrsta flokki verða þá goðsagnir. Til þeirra heyra mörg kvæðin
í Sæmundar-Eddu og sögurnar, sem Snorri Sturluson segir af Asum
í Eddu sinni. Einkenni goðsagna eru næsta glögg: sögubetjan er
ekki mannleg, heldur goðkynjuð, og hún hefur mikið vald yfir öflum
náttúrunnar. Yfirleitt gerast atburðirnir í goðheimi, svo að allt verð-
ur eins frábrugðið venjulegri reynslu manna og framast má verða.
í rauninni má líta svo á Ásaþættina í Ynglinga sögu og Gautreks
sögu, að hér sé engan veginn um goðsögur að ræða þar sem atburð-
irnir eru látnir gerast í mannheimi, í tilteknum löndum, svo að svið-
ið er ekki goðsögulegt. Þótt goðin séu gædd mannlegum tilfinningum
og þoli harma og þjáningar, gleði og gaman, eins og venjulegt fólk,
þá eru þau svo gerólík oss að öðru leyti, að eðli þeirra skipar þeim
í annan heim og flokkar því sögur um þau sér.
I öðrum flokki lenda hetjusagnir, og í þeim flokki eru fornaldar-
sögur og riddarasögur. Umhverfið er ekki einungis þessa heims,
heldur er frásögninni sett svið í tilteknum löndum, sem eru ávallt
utan Islands; oft er þar um að ræða Norðurlönd, Garðaríki eða
Bretlandseyj ar, en önnur lönd koma einnig til greina, víðs vegar
um álfuna og utan hennar, frá Marklandi og Grænlandi í vestri og
austur til Indlands, frá Dumbshafi í norðri og suður til Blálands.
Söguhetjan er yfirleitt konungborin og á stundum ættir sínar að
rekja til goða. Hún er að vísu mannleg, en þó yfirleitt búin mörgum
eiginleikum, sem hefja hana langt yfir venjulegt fólk, og í slíkum
sögum koma fyrir persónur, sem ráða yfir öflum náttúrunnar meira
en tilhlýðilegt þykir í raunsæjum bókmenntum. Á dögum sagnarit-
unar gerðu menn sér ljósa grein fyrir þessum einkennum hetjusagna,
og má í þessu sambandi minna á ummælin í Þiðreks sögu af Bern:
,,En hver frásögn mun sýna að eigi hafa allir menn verið með einni
náttúru. Frá sumum er sögð speki mikil, sumum afl eður hreysti
eður nokkurs konar atgervi eður hamingja, svo framt að frásagnir
megi af ráða. Annar söguháttur er það að segja frá nokkurs konar
örskiptum eður frá kynslum eður undrum, því að á marga lund hef-
ir orðið í heiminum.“ Þegar segir frá venjulegu fólki í slíkum bók-
menntum, er það oft gert í því skyni að skopast að því eða koma
fram kímni, sem á ekki jafnvel við þar sem konungborið fólk og