Skírnir - 01.01.1969, Síða 58
52
HERMANN PÁLSSON
SKÍRNIR
heyþrot og heytöku hlýtur að vera nátengd við félagsleg og lagaleg
vandamál á þeim tíma er sagan var rituð. Hér er því verið að fara
út á brautir, þar sem skoðanir manna um sagnfræðilegt gildi sagn-
anna hrökkva ærið skammt til skýringa á eðli þeirra. Niðurstöðurn-
ar af rannsóknum Björns Sigfússonar og annarra fræðimanna á
þessu sviði hljóta meðal annars að verða þær, að sögur á borð við
Hænsna-Þóris sögu beri að telja heimildir um þrettándu öld engu
síður en um þá tíundu.
Hér að framan var vikið að hugtakinu heildarmenning íslendinga
á dögum sagnaritunar, en það felur að sjálfsögðu í sér þætti, sem
arfsagnamenn leggja mikla áherzlu á, þótt miðaldafræðingum þyki
þeir minna máli skipta. Forn hetjukvæði hafa ekki einungis haft
áhrif á einstakar persónulýsingar og atvik, svo sem í Gísla sögu14
og Laxdælu, heldur einnig annars staðar, þar sem örðugra getur ver-
ið að festa hendur á ákveðnum fyrirmyndum. Mér þykir til að
mynda ekki ósennilegt, að örlög og hefndir í sögunum stafi frá bein-
um áhrifum frá hetjukvæðum, fremur en að þau sýni raunveruleg
viðhorf sagnahöfundanna. í bókmenntum gegna slík hugtök mikil-
vægum hlutverkum, en varlega skal farið í þá sálma að rekj a þau til
reynslu höfundanna sjálfra. Nú er það í sjálfu sér ekkert undarlegt,
þótt hetjukvæðin hafi orkað á íslenzka rithöfunda á þrettándu öld,
þar sem þau eru þá snar þáttur í menningu þjóðarinnar og raunar
lengur. Slíkt verður meðal annars ráðið af því, að þá eru þau færð
í letur, Snorri Sturluson endursegir sum þeirra í Eddu, og hetju-
sögur á borð við Völsunga sögu og Þiðreks sögu af Bern komast á
bókfell. Og ýmis atvik í sögu Niflunga voru mönnum sístæð í minni,
af því að skáldin vitnuðu til þeirra með kenningum sínum í lofkvæð-
um og lýrík. En andi hetjukvæðanna, rammur og örlagaþrunginn,
höfðinglegur og fjarlægur í senn, varð aldrei allsráðandi í Islend-
ingasögum, heldur einungis einn þátturinn í þessum margslungnu
bókmenntum, og aðrir straumar valda þar meiru um.
Þótt höfundar hafi víslega sótt mikið af efni sagnanna í bók-
menntalega og persónulega reynslu sína, þá verður að sjálfsögðu að
gera ráð fyrir því, að margir atburðir í sögunum hafi raunverulega
gerzt á söguöld og geymzt í minni manna um kynslóðabil. Sérstak-
lega má gera ráð fyrir því, að bardagar, víg og ýmsir aðrir siðferði-
legir og lagalegir glæpir, sem lýst er í sögunum, hafi í rauninni átt