Skírnir - 01.01.1969, Page 60
54
HERMANN PÁLSSON
SKÍRNIR
þarf ekki að gera sér neina rellu út af því, hvort Gunnar bóndi á
Hlíðarenda hafi raunverulega tekið þátt í herferð gegn víkingum í
Eystrasaltslöndum og unnið með sliku nokkra landhreinsun þar
eystra seint á tíundu öld. Sannfræðin skiptir þar engu máli að öðru
leyti en því, að slíkar atburðalýsingar gátu orkað misjafnlega á
lesendur, sem vildu setja frásögn Njálu í samband við sögu tíundu
aldar. En innan listaverksins sj álfs eru ævintýri Gunnars engu minni
veruleiki en aðrir viðburðir, sem þar er lýst, jafnvel þeir sem hægt
er að ráða af öðrum heimildum, að hafi raunverulega gerzt. Þegar
menn taka Grettlu til bænar og vilja flæma Glám í burtu, af því að
þessi sænski smalamaður deyr voveiflega og gengur síðan aftur, þá
er verið að myrða eitthvert stórfelldasta bókmenntaafrek íslendinga
að fornu og nýj u. Afturganga Gláms, samkvæmt frásagnarlögmálum
sögunnar sjálfrar, er engu minni veruleiki í listaverkinu en víg Þor-
bjarnar öxnamegins eða fyrsta utanferð Grettis með Hafliða á
Reyðarfelli. En arfsagnamenn hafa sífellt verið að blanda saman
tveim ólíkum heimum: annars vegar ævum íslenzkra bænda og
höfðingja á söguöld, og hins vegar því, sem gerist í bókmenntunum
sjálfum. Fyrra viðfangsefnið heyrir til sagnfræðirannsóknum, hið
síðara ritskýringu; að rugla þeim saman hefur yfirleitt ömurlegar
afleiðingar.
Margir nútímalesendur meta sögurnar sem óblandnar hetjubók-
menntir, svo að þeir leggja sérstaka áherzlu á afrek og víg hetjunn-
ar, á glæsibrag hennar og yfirburði. Slíkur skilningur á sögunum
er næsta afsakanlegur, þar sem sögurnar eru viðburðaríkar, og í
þeim ríkir oft furðu mikil spenna, sem minnt getur á ævintýrabók-
menntir. En þó hefur þessi afstaða til sagnanna þrengt hugmyndir
manna um of, og slíkar hugmyndir hafa leitt af sér, að sögurnar eru
oft taldar vera heiðnar bókmenntir að verulegu leyti. Ein ástæðan
til þess er sú, að menn hafa ekki gert sér nægilegt far um að athuga
hvatir manna og önnur siðferðileg atriði í sögunum. Afrekin hafa
verið metin meira en það hugarfar, sem til þeirra leiddi, og mönn-
um hefur oft sézt yfir það, að einstakir atburðir eru einungis hlekkir
í langri keðju. Sögunum var ekki einungis ætlað að fræða menn um
það, sem eitt sinn hafði gerzt eða átti að hafa gerzt, heldur einnig
um almenn vandamál, sem vörðuðu höfundana og lesendur þeirra.
Þær fjalla yfirleitt um fólk, sem lendir í deiglu og tekur rangar