Skírnir - 01.01.1969, Page 111
ROBERTCOOK
Dante á íslenzku
ÚtgÁfa Menningarsjóðs á Danteþýðingu hlýtur að teljast merkur
og ánægjulegur menningarviðburður. Mesta skáld miðalda - og
annað mesta skáld síðari alda, við hlið Shakespeares, - verðskuldar
sannarlega að vera betur þekkt með þjóð, sem á bókmenntir, er
stóðu með mestum blóma á miðöldum. Þýðing Guðmundar Böðvars-
sonar er þess virði, að hún sé lesin niður í kjölinn og gaumgæfilega
gagnrýnd.*
Ætlun Guðmundar, eins og hann gerir grein fyrir í forspjalli sínu,
er að láta okkur í té „lauslega þýðingu" í hinu upphaflega ijóða-
formi Dantes, terza rima eða þríhenduformi. Það er ekkert á-
hlaupaverk. í fyrsta lagi hentar terza rima eða þríhenduformið
miklu síður íslenzku máli en ítölsku, þar sem „ýkjulaust má segja
að allt rími saman að heita má“ eins og John Ciardi kemst á ein-
um stað að orði.1 Terza rima krefst ógrynnis rímorða og germönsk
mál standa rómönskum málum að baki á því sviði, sumpart „af
því, að í rómönskum málum hvílir áherzla orðanna margsinnis á
endingum sem sameiginlegar eru heilum kerfisflokkum.“2 Guð-
mundi er þessi vandi fyllilega ljós: „Ég get ekki neitað því að þrí-
henduformið, hin samslungna bragflétta kviðuna á enda, skapar
þungan róður. Rímorðin, tveggja samstafa og alltaf þrjú, leiða
mann í þá freistni að nota orð, sem maður annars vildi gjarnan
losna við, en notar samt, ef þau gefa manni betri færi síðar meir“
(bls. 25-5). Annar vandi, sem Guðmundur verður að glíma við,
er sá, að hann kann ekki ítölsku og er því neyddur til að notast
við danska þýðingu eftir Chr. K. F. Molbech og tvær enskar þýðing-
* Dante Alighieri: Tólf kviður úr Gleðileiknum guðdómlega. Guðmundur
Böðvarsson íslenzkaði. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1968.